Elvar Már Friðriksson gerði 35 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í kvöld en það dugði ekki til og Njarðvíkingar máttu sætta sig við enn einn ósigurinn í Stykkishólmi er Snæfell tók 1-0 forystu í einvígi liðanna. Um hörkuleik var að ræða þar sem Hólmarar reyndust þrautgóðir á raunastund. Njarðvíkingar áttu lokasóknina og vildu þar fá villu en fengu ekki. Fyrir þessa lokasókn höfðu gestirnir þó nokkrum sinnum farið illa að ráði sínu og misstu leikinn aftur frá sér eftir að hafa komið sér í þægilega 72-78 stöðu. Snæfell gerði 7 síðustu stig leikins og dugir því sigur til viðbótar til að komast í undanúrslitin.
 
Gestirnir úr Njarðvík hófu leikinn með látum og komust í 2-10 þar sem leikstjórnandinn öflugi Elvar Már Friðriksson var að skóla heimamenn er hann raðaði einn síns liðs stigunum yfir Snæfellsvörnina. Heimamenn svöruðu þessari blautu tusku með 14-0 áhlaupi og því óhætt að segja að nokkuð hafi gengið á í upphafi leiks. Heimamenn leiddu svo 22-18 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Elvar Már var með 10 stig og Jón Ólafur 9 í liði Snæfells.
 
Aftur var Elvar Már með læti er annar leikhluti hófst og gerði fimm Njarðvíkurstig í röð og minnkaði muninn í 22-21. Hólmarar létu þó ekki forystuna af hendi og voru alltaf yfir, vörnina léku þeir af festu og grænir áttu í basli með að prjóna sig í gegn. Jay Threatt gerðist beittari með hverri mínútunni í öðrum leikhluta og var kominn með 12 stig í hálfleik þar sem heimamenn leiddu 41-36.
 
Elvar Már var magnaður í fyrri hálfleik með 22 stig en Jay Threatt með 12 stig í liði Hólmara.
 
Marcus Van byrjaði af krafti og hamraði eina troðslu, reif niður frákast og skoraði yfir Snæfell í annari sókn Njarðvíkur og staðan því strax jöfn 41-41 á fyrstu augnablikum síðari hálfleiks. Liðin léku stál í stál og Njarðvík komst yfir 52-54 með þristum frá Elvari Má og Ágústi Orrasyni. Jón Ólafur kom Snæfelli yfir með þremur 57-56 og var það staðan eftir þriðja hlutann.
 
Ótrúlega gaman að sjá bakverði beggja liða Jay Threatt og Elvar Má eigast við en þar fór allt sem góður körfubolti getur sýnt okkur í þessum flottu leikmönnum sem héldu sínum liðum algjörlega við efnið allan leikinn. Njarðvík komst yfir 68-62 en Snæfell með þristum frá Ryan og Jóni náðu að jafna 68-68 þegar 4:30 voru eftir. Ágúst Orrason átti þá magnaðan þrist á skotklukkuflautu og Ólafur Helgi bætti öðrum við og staðan 68-74 og hittnin ógurleg á þessum kafla.
 
Þvílíkur leikur sem boðið var upp á í Hólminum og Njarðvík leiddi 76-78 þegar 1:35 voru eftir sem breyttist fljótt í 79-78 fyrir Snæfell þegar Jay Threatt fór á vítalínuna með þrjú skot og Snæfell hafði skorað sjö síðustu stig leiksins. 20 sekúndur voru eftir og Njarðvík var í sókn og fengu svo innkast þegar 4 sekúndur voru eftir en náðu ekki að nýta sér það og Snæfell sigraði 79-78 og leiða 1-0 í einvíginu. Fjöldi úr röðum Njarðvíkinga vildi villu í lokasókninni en þar komu dómarar leiksins ekki auga á neitt áhugavert og þar við sat. Það er því ljóst að hörkuleikur verður í boði á mánudaginn næsta í leik tvö í Njarðvík.
 
Snæfell: Ryan Amoroso 27/10 frák. Jay Threatt 22/4 frák/9 stoðs. Jón Ólafur Jónsson 17/4 frák. Pálmi Freyr 6. Sigurður Þorvaldsson 5. Ólafur Torfason 2. Stefán Karel 0. Sveinn Arnar 0. Hafþór Ingi 0. Tinni Guðmundsson 0. Óttar Sigurðsson 0. J.Kristófer Sævarsson 0.
 
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 35/7frák/6 stoðs. Marcus Van 17/24 frák. Ólafur Helgi 11. Ágúst Orrason 6. Nigel Moore 5/5 frák. Hjörtur Hrafn 2. Friðrik Stefánsson 2. Óli Ragnar 0. Kristján Rúnar 0. Oddur Birnir 0. Maciej S Baginski 0. Brynjar Þór 0.
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín – jon@karfan.is