Nú líður senn að lokum deildarkeppni Domino‘s deildar karla og úrslitakeppnin færist nær, einungis tvær umferðir eru eftir og spennan magnast með hverjum leik. Eins og hinn almenni áhorfandi kannast við getur verið gaman að velta fyrir sér hinum ýmsu úrslitum, mögulegum og ómögulegum en reglur KKÍ hafa gert mörgum lífið leitt þegar að útreikningum kemur. Kæmist mitt lið áfram ynni það á morgun, hvaða áhrif hefðu tvö töp í röð hjá mínu liði á lokastöðuna í deildinni?
 
Karfan.is hefur í samstarfi við valinkunna menn unnið að gerð reiknirits fyrir Domino‘s deild karla tímabilið 2012-2013 og kynnir það hér með til leiks. Eina sem þarf að gera er að stimpla inn úrslit leikja í skjalið, hvort sem um er að ræða raunveruleg úrslit leikjanna, getgátur eða hreina tilraunastarfsemi. Skjalið reiknar svo út fyrir þig eftir kúnstarinnar reglum í hvaða sæti liðin í deildinni lenda og sýnir, miðað við innstimpluð úrslit og stöðuna í deildinni hverju sinni, hverjir mótherjar í úrslitakeppninni verða.
 
Skjalið, sem virkar einna best í Excel 2010 og 2013, má sækja hér