Stjarnan vann í kvöld sinn fjórða deildarleik í röð þegar liðið lagði KR 75-87 í DHL Höllinni. Stjarnan vermir nú 4. sæti deildarinnar með 26 stig en KR féll niður í sjöunda sæti með tapinu þar sem Njarðvík vann Tindastól í Skagafirði. Jarrid Frye átti magnaðan leik í liði Stjörnunnar með 32 stig, 12 fráköst og tvær stoðsendingar. Brynjar Þór Björnsson gerði 18 stig í liði KR, tók 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Sigur liðsheildarinnar hjá Stjörnunni sem léku sterka liðsvörn sem KR var í mesta basli með lungann úr leiknum.
 
Menn hittu vel á upphafsmínútunum, Brandon Richardson gerði fimm fyrstu stig KR og Brynjar Þór Björnsson kom röndóttum í 8-5 með þrist. KR-ingar höfðu frumkvæðið þessar upphafsmínútur en gestirnir fóru hægt og bítandi að þétta vörnina og lokuðu fyrsta leikhluta með sterku 1-13 áhlaupi og leiddu 18-27 að leikhlutanum loknum. Justin Shouse gerði lokakörfu leikhlutans með laglegu gegnumbroti þar sem hann prjónaði sig í gegnum KR vörnina og skoraði úr erfiðri stöðu.
 
Jovan Zdravevski byrjaði annan leikhluta með látum, kom sterkur inn af bekknum í fyrri hálfleik og setti niður 12 stig fyrir Stjörnuna. Annar leikhluti var öllu rólegri en sá fyrsti því Garðbæingar héldu fast um taumana. Hentistefnan virtist ráða för í sóknarleik vesturbæinga og bláir juku muninn, Jovan kom Stjörnunni í 32-52 en þá rönkuðu heimamenn við sér og héldu á 7-2 skrið og staðan því 39-54 í hálfleik.
 
Justin Shouse átti lokaskot fyrri hálfleiks sem vildi ekki niður en fór með hnéð á undan sér og Brynjar Þór Björnsson varð fyrir smá hnjaski í kjölfarið, heimamenn kröfðust þess að fá ruðning á leikstjórnandann knáa og höfðu töluvert til síns máls en dómarar leiksins þeim ekki sammála að sinni.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja 37,5% – þriggja 33,3% og víti 69,2%
Stjarnan: Tveggja 64% – þriggja 60% og víti 66,6%
 
Síðari hálfleikur rúllaði af stað með nokkuð meiri hörku en vart var við í fyrri hálfleik. Framan af þriðja leikhluta virtust Stjörnumenn ætla að hafa það náðugt. Þegar seig á leikhlutann náðu heimamenn að hleypa smá lífi í leikinn, Kristófer Acox tróð með tilþrifum og Brandon Richardson bætti við þrist og KR minnkaði muninn í 59-68 með 12-4 áhlaupi. Jarrid Frye sem var frábær í kvöld átti lokaorðið í leikhlutanum með flautukörfu í teig KR og staðan 63-72 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Eins og KR átti góða rispu undir lok þriðja hluta var byrjun þeirra á þeim fjórða döpur. Justin Shouse kom Stjörnunni í 66-81 með þriggja stiga körfu þegar rúmar sex mínútur lifðu leiks. KR náði að minnka muninn í 71-83 og þegar hér var komið við sögu voru nokkrir KR þristar sem dönsuðu af hringnum en þeir hefðu verið vel til þess fallnir að hleypa góðu lífi í leikinn. Stjarnan hafði einfaldlega byggt of sterkan grunn snemma leiks og kláruðu því leikinn af öryggi 75-87.
 
Eins og fyrr greinir var Jarrid Frye sterkur í liði Stjörnunnar með 32 stig og 12 fráköst og Justin Shouse bætti við 21 stigi, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum. Þá var Jovan Zdravevski með 17 stig og 8 fráköst af bekknum. Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson atkvæðamestur með 18 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar. Darshawn McClellan þvældist bara fyrir í kvöld og skilaði 5 stigum og 4 fráköstum hjá KR, ekki beint framlag atvinnumannsins sem leitað er eftir. Kristófer Acox kom með 10 stig og 10 fráköst af bekknum og Martin Hermannsson gerði 13 stig.
 
Varnarleikur Stjörnunnar var sterkur í kvöld og bikarmeistararnir búnir að vinna fjóra deildarleiki í röð, heitasta lið landsins um þessar mundir á eftir Njarðvíkingum sem unnið hafa síðustu fimm leiki sína. Eftir leikinn í kvöld er Stjarnan svo í 4. sæti með 26 stig en KR féll í kvöld niður í 7. sæti með 20 stig og misstu Njarðvíkinga upp fyrir sig í 6. sæti deildarinnar.
 
Skotnýting liðanna í leikslok:
KR: Tveggja 43,4% – þriggja 26,9% og víti 66,6%
Stjarnan: Tveggja 57,1% – þriggja 41,1% og víti 66,6%
 
Byrjunarliðin:
KR: Brandon Richardson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon, Darshawn McClellan og Finnur Magnússon.
Stjarnan: Justin Shouse, Kjartan Atli Kjartansson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason.
 
 
Mynd og umfjöllun/ jon@karfan.is – nonni@karfan.is