Í kvöld unnu Njarðvíkingan öruggan sigur á Fjölni í Ljónagryfjunni, 100-75 í Domino´s deild karla. Þeir fengu gott framlag úr mörgum áttum og sigurinn var aldrei í hættu.
 
Fjölnismenn byrjuðu leikinn með fyrstu körfunni, en hún kom ekki fyrr en eftir tæplega tveggja mínútna leik og liðin enn að komast í gang. Fjölnismenn skoruðu þó ekkert næstu mínúturnar á meðan Njarðvíkingar sóttu í sig veðrið og komust í 11-2 forystu. Marcus Van virtist óstöðvandi í fyrsta fjórðungnum en hann skoraði 11 stig, tók 8 fráköst og hitti úr 5 af 7 skotum sínum í leikhlutanum. Eftir tíu mínútna leik var staðan 20-14 og Njarðvíkingar með tök á gestunum.
 
Ágúst Orrason fór fyrir Njarðvíkingum í öðrum leikhluta og setti þrjá þrista í upphafi hans, auk þess sem hann bætti seinna í fjórðungnum við þrem vítum, svo hann skoraði 12 stig í öðrum hluta einum og sér. Heimamenn bættu við forystu sína eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og 7 leikmenn skoruðu fyrir þá í öðrum fjórðungi. Hálfleikstölur 50-30 Njarðvík í hag.
 
Njarðvíkingar héldu áfram að spila vel í seinni hálfleik og margir stigu upp, í þriðja leikhlutanum var það Hjörtur Hrafn Einarsson sem skoraði 10 stig fyrir liðið í þriðja fjórðung, og það allt á síðustu tveim mínútum leikhlutans.
 
Það þarf ekkert að fara fleiri orðum um þennan leik, Njarðvíkingar voru í heildina mikið mun betri og eru komnir með yfir 50% sigurhlutfall, eða 10 sigra gegn 9 töpum.
 
Nigel Moore, leikmaður Njarðvíkur fann sig ekki sóknarlega í leiknum en hann tók aðeins þrjú skot utan af velli í leiknum og gerði þrjú stig, en tók þó 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Það hafði samt sem áður engin áhrif á Njarðvíkurliðið, maður kemur í manns stað.
 
Marcus Van átti frábæran leik fyrir heimamenn og skoraði 25 stig, reif 21 frákast, varði 3 skot og bætti síðan við einni rosalegri þriggja stiga körfu í lok leiksins. Næstur honum kom Elvar Már Friðriksson með 18 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.
 
Chris Smith átti mjög fínan leik fyrir Fjölnismenn, en hann gerði 22 stig, tók 12 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og varði einnig fimm skot. Þá skoraði Magni Hafsteinsson 16 stig og tók 8 fráköst fyrir bláklædda og Tómas Tómasson bætti við 12 stigum og 7 fráköstum.
 
 
Mynd: HH
Umfjöllun: AÁ