Njarðvíkingar unnu risastóran sigur á nágrönnum sínum í Keflavík fyrr í kvöld í frábærum leik þar sem vantaði ekki upp á spennuna. Lokatölur urðu 100-94 fyrir heimamönnum úr Njarðvík en þeir voru með yfirhöndina mest allan leikinn. Njarðvíkingar unnu því báðar grannaglímurnar þessa vertíðina og halda montréttinum hvað það varðar fram að næstu leiktíð.
 
Nigel Moore opnaði leikinn með flottu stökkskoti fyrir Njarðvík en gestirnir skoruðu þá 8 stig í röð og komust í 2-8 forystu. Njarðvíkingar voru þó ekki lengi að vinna sig upp úr því, þar sem að um mínútu síðar voru þeir komnir í 9-8. Heimamenn náðu mest 9 stiga forskoti í fyrsta fjórðungnum en Keflavík endaði leikhlutann á 7-3 áhlaupi og staðan 25-20 að loknum 10 mínútum.
 
Liðin léku sama leik í öðrum leikhluta, Njarðvík náði á köflum u.þ.b. 10 stiga forystu en Keflvíkingar komu í veg fyrir að heimamenn næðu að stinga af og aftur enduðu þeir leikhluta á áhlaupi, í þetta skiptið 10-0 og hálfleikstölur leiksins voru 49-45. Magnús Þór Gunnarsson og Arnar Freyr Jónsson 
komust báðir snemma leiksins í villuvandræði og voru með þrjár villur hvor í hálfleik.
 
Njarðvíkingar virtust hafa mun meira gaman af því að spila þennan leik og Keflvíkingar veltu sér mikið upp úr dómurum og slíku, þó svo heimamenn hafi auðvitað ekki alltaf verið sammála þeim appelsínugulklæddu. Gestirnir áttu flottar rispur í seinni hálfleiknum og jöfnuðu leikinn í fjórða leikhluta en Njarðvíkingar héldu alltaf haus og alltaf einhverjir sem gátu skorað risakörfur sem tryggðu sigurinn, 100-94.
 
Nigel Moore var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu í kvöld með 26 stig og 5 fráköst og næstur honum var Elvar Már Friðriksson með 25 stig og 5 stoðsendingar. Marcus Van sem átti nokkrar magnaðar troðslur í kvöld lauk leik með 15 stig og 22 fráköst. Hjá Keflvíkingum var Darrel Lewis með 30 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Michael Craion gerði 23 stig og tók 17 fráköst.
 
 
 
Umfjöllun/ ÁÁ