Tindastóll og Njarðvík áttust við í kvöld í rafmögnuðum leik en fyrir leik var Tindastóll í 9. sæti deildarinnar en Njarðvíkingar í því sjöunda. Skemmst er frá því að segja að eftir framlengingu og mikinn hasar fóru unglingarnir úr Njarðvíkinni með sigur af hólmi 98-103.
 
Leikar hófust með miklum látum en Njarðvíkingar byrjuðu leikinn aðeins betur og leyfðu Tindastólsmönnum að elta sig allan fyrsta leikhluta sem endaði 20-24 fyrir Njarðvíkingum. Í öðrum leikhluta fóru hlutirnar að ganga betur fyrir Tindastólsmenn, nánast allir búnir að stilla miðið og af þeim átta leikmönnum sem Bárður notaði í leiknum, voru sex sem settu þriggja stiga körfu í öðrum leikhluta. Njarðvíkingum tókst þó að lifa af stórskotahríðina þar sem að ekki munaði nema fimm stigum í hálfleik, 51-46. Afdrifaríkt atvik átti sér samt stað í fyrri hálfleik fyrir Stólanna þegar Þröstur Jóhanns fékk dæmda á sig villu undir lok hálfleiksins. Þröstur var líklega ekki alveg sammála mati dómarans í það skiptið og skellti uppúr. Jón Bender einn af þremur dómurum leiksins sá hins vegar ekkert spaugilegt við atvikið og bauð Þresti upp á tæknivillu. Þar með var Þröstur kominn með fjórar villur og löng bekkjarseta fyrirsjáanleg í seinni hálfleik.
 
Yfir í seinni hálfleik. Þriðji leikhlutinn var mun harðari en sá fyrri. Liðin hertu varnir og nokkuð ljóst að það er farið að styttast verulega í annan endann á þessari leiktíð. Tindastólsmenn voru að leika örlítið betur en Nigel Moore var að hitta vel fyrir Njarðvíkinga á þessum kafla og hélt Njarðvíkurliðinu rétt við rassgatið á Tindastólsmönnum.
 
Tindastólsmenn byrjuðu fjórða leikhluta ágætilega og náðu mest átta stiga forskoti og á tímabili leit út fyrir að þeir væru búnir að taka stefnuna í örugga höfn þegar staðan var 68-60, átta mínútur eftir og Njarðvíkingar búnir að vera ansi stirðir í sókninni allan seinni hálfleikinn. En á þeim tímapunkti fékk Þröstur sína fimmtu villu og hvort sem það var ástæðan eða bara tilviljun, þá fóru Njarðvíkingar á „run“ í kjölfarið. Tveir þristar frá Ágústi Orrasyni og einn frá Hirti Hrafni Einarsyni jöfnuðu leikinn og leikurinn datt í járnin víðfrægu.
 
Síðustu fimm mínútur voru jafnar á öllum tölum en síðustu stig venjulegs leiks átti Drew Gibson þegar 50. sek voru eftir en þá jafnaði hann leikinn með þristi. Liðin skiptu síðustu tveimur sóknum jafnt á milli sín án þess að koma stigi á töfluna enda báðar sóknirnar álíka klaufalegar og þar sem körfubolti má blessunarlega aldrei fara jafntefli var framlenging næst á dagskrá.
 
Það má leiða líkum að því að Njarðvíkingurstrákarnir hafi verið meira til í framlengingu en heimamenn þar sem bæði Þröstur og Helgi Rafn voru komnir á bekkinn með fimm villur og verulega var farið að sjá á Valentine og Gibson. Virtust hreinalega vera örþreyttir á tímabili. Að minnsta kosti lafmóðir.
 
Njarðvíkingar byrjuðu líka betur. Nigel Moore datt allsvakalega í gang og brenndi netið með hverju skotinu sem fór í loftið. Hjá Stólunum var díselvélin Svavar Atli orðinn heitur og náði að halda Stólunum í leiknum. En Njarðvíkingar voru of sprækir, Elvar Már og Nigel Moore voru komnir í allt annan gír og þegar mínúta var eftir voru Njarðvíkingar komnir með fimm stiga forskot. Tindastólsmenn tóku upp á því að senda Marcus Van reglulega á línunna með svokölluðu „hack-a-Shaq“ varnartilbrigði enda virtist Marcus vera í miklum erfiðleikum með að drífa á körfuna í fyrri vítum sínum í leiknum. En þegar á reyndi brást Marcus ekki bogalistinn og þrátt fyrir þrista frá Drew Gibson og Helga Frey þá töldu vítin hans Marcusar meira og Njarðvíkingar stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar.
 
Mikil og frábæri skemmtun í Síkínu í kvöld. Tindastóls menn voru að hitta betur í leiknum, en tapaðir boltar og léleg vítanýting voru dýrkeypt, auk þess sem villuvandræði og bekkjarseta Helga Rafns og Þrastar töldu mikið þar sem að Tarick Johnson var í borgaralegum klæðnaði í kvöld. Það sást best í framlengingunni þar sem eldsprækir Njarðvíkingar settu 21 stig á þeim fimm mínútum sem framlengingin varði. Þá hjálpaði ekki mikið til fyrir Stólanna að Njarðvíkingar fóru 37 sinnum á vítalínuna en Tindastólsmenn einungis 12 sinnum, hver sem ástæðan var fyrir því.
 
Hjá Njarðvík var Nigel Moore þrælöflugur, sérstaklega þegar á reyndi og síðan er alltaf jafn gaman að fylgjast með Elvari Má sem átti einnig fínasta leik.
Erfitt tap fyrir Tindastól sem eru nú búnir að tapa tveimur mjög jöfnum leikjum í röð þannig að næsti leikur gegn ÍR gæti orðið úrslitaleikur um sæti í deildinni. 
 
 
 
Umfjöllun/ BIO