Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í 10. flokki karla eftir hörku slag gegn Breiðablik í bikarúrslitum. Sterk rispa Njarðvíkinga í fjórða leikhluta skóp sigurinn og lokatölur 51-44 Njarðvík í vil. Kristinn Pálsson var valinn besti maður leiksins með 14 stig, 16 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Njarðvíkingar hófu leikinn á glás af sóknarfráköstum og það hlaut að leiða til árangurs á endanum því Kristján Örn Rúnarsson kom boltanum loks í netið fyrir Njarðvíkinga. Ekki amaleg harðfylgisyfirlýsing hjá Njarðvíkingum svona í upphafi leiks. Ragnar Helgi Friðriksson var beittur í Njarðvíkurliðinu í fyrri hálfleik en Blikum óx ásmegin og leiddu 11-13 að loknum fyrsta leikhluta. Blikar mættu með svæðisvörn inn í leikinn og þegar annar leikhluti hófst voru Njarðvíkingar búnir að koma sér upp sama varnarafbrigði.
 
Breki Gylfason gerði fjögur Blikastig í röð í upphafi og öll eftir sóknarfrákast en Blikar gerðu vel að finna hann opinn gegn svæðisvörn Njarðvíkinga. Blikar fóru mikið inn miðjuna gegn svæðisvörn Njarðvíkinga og vildu Kópavogsdrengir jafnan finna þar Breka og Snorra Vignisson.
 
Njarðvíkingar tóku sig til og fóru að pressa á Blika sem gaf vel og uppskáru þeir 7-0 syrpu sem breytti stöðunni í 22-19 Njarðvík í vil. Blikar réðu illa við pressuna sem og Ragnar Helga Friðriksson sem kynti undir Njarðvíkurlestinni. Bæði lið voru þó nokkuð að fara illa með færin sín við körfuna en það voru Njarðvíkingar sem leiddu 24-22 í hálfleik. Ragnar Helgi Friðriksson var með 8 stig í hálfleik hjá Njarðvík en Aron Brynjar Þórðarson 6 í liði Breiðabliks.
 
Snorri Vignisson byrjaði síðari hálfleikinn vel í liði Blika og Aron Brynjar Þórðarson bætti við þrist og Blikar komust í 26-27. Ragnar Helgi Friðriksson fékk snemma sína fjórðu villu í Njarðvíkurliðinu og hélt á bekkinn en Jón Arnór Sverrisson kom sterkur inn í hans stað og lokaði hann leikhlutanum með stolnum bolta og körfu um leið og leikhlutanum lauk og leiddu Njarðvíkingar 38-33 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þegar hér var komið við sögu voru liðin samtals 2-18 í þriggja stiga skotum og Njarðvíkingar ekki enn búnir að skora þrist í leiknum á 24 mínútum!
 
Blikar opnuðu fjórða leikhluta með miklum látum og með fimm stigum í röð frá Aroni Brynjari Þórðarsyni náðu Blikar að jafna 38-38 en Aron skellti niður þrist, stal bolta í næstu Njarðvíkursókn, brunaði fram og kláraði vel. Nýtt líf hlaupið í leikinn þegar Njarðvíkingar virtust ætla að sigla framúr.
 
Þegar Blikar fengu dæmda á sig óíþróttamannslega villu í fjórða leikhluta fór að halla undan fæti. Það var réttur og góður dómur hjá Georgi Andersen öðrum dómara leiksins en í því atviki gerðust Blikar brotlegir við miðju vallarins, sluppu með það brot þar sem Njarðvíkingar voru í miðri skyndisókn en dómarar létu það ekki ótalið þegar Blikar brutu á Atla Karli Sigurbjartssyni þar sem hann var nánast einn á auðum sjó við körfu Blika. Njarðvíkingar fengu boltann aftur eftir að Atli Karl hafði komið þeim í 44-40 af línunni og í sömu andrá kom Ragnar Helgi aftur inn af Njarðvíkurbekknum. Innkoma Ragnars kynti svo enn undir Njarðvíkingum sem tóku á rás og juku muninn í 11 stig þar sem hinn dúnamjúki Adam Eiður Ásgeirsson skellti niður þrist. Ragnar Helgi fékk skömmu síðar sína fimmtu villu í liði Njarðvíkur en það kom ekki að sök og Njarðvíkingar kláruðu leikinn 51-44.
 
Skemmtilegur slagur tveggja öflugra liða þar sem Njarðvíkingar stóðust álagið á lokasprettinum og fögnuðu bikarmeistaratitli þrátt fyrir að hafa átt dapran dag við þriggja stiga línuna eða 1 af 13! Kristinn Pálsson var eins og áður greinir valinn maður leiksins með 14 stig og 16 fráköst og Ragnar Helgi Friðriksson bætti við 12 stigum, 6 stoðsendingum, 3 fráköstum og 4 stolnum boltum.
 
 
 
Dómarar leiksins: Davíð Kr. Hreiðarsson og Georg Andersen
 
nonni@karfan.is