Þór er komið í úrslitakeppni fyrstu deildar karla  í körfubolta  en liðið tryggði sér endanlega fimmta og síðasta sæti úrslitakeppninnar með sigri á Reyni í gærkvöldi. Á sama tíma tapaði Breiðablik gegn Haukum og þar með urðu möguleikar þeirra um sæti í úrslitakeppninni að engu.
 
Leikur Þórs og Reynis verður seint minnst fyrir skemmtanagildi eða fyrir stórkostleg tilþrif. Þór byrjaði leikinn betur og virtust vel stemmdir þegar leikurinn hófst en baráttuglaðir Reynismenn bitu fljótlega frá sér og veittu heimamönnum verðuga keppni og höfðu eins stigs forystu þegar fyrsta leikhluta lauk 26-27.
 
Gestirnir byrjuðu annan leikhlutann ágætlega og höfðu í fullu tré við heimamenn sem virtust heldur áhugalitlir framan af leikhlutanum. En Þórsarar drifnir áfram að Sigmundi Óla Eiríkssyni og Darko Milosevic náðu smán saman tökum á leiknum jöfnuðu leikinn og sigu smán saman fram úr og höfðu 9 stiga forystu í hálfleik 51-42.
 
Þórsliðið virtist nú vera hrokkið í gang og jók jafnt og þétt á forskotið en góð barátta gestanna undir lok fjórðungsins kom í veg fyrir að Þór næði að stinga af. Leikhlutann vann Þór með  fjórum stigum og þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst hafði Þór þrettán stiga forystu 76-63.
 
Nú héldu margir að björninn væri unninn og heimamenn ættu sigurinn vísann. En svo var ekki. Gestirnir komu afar ákveðnir til leiks í síðasta leikhlutanum og tóku að saxa á forskot Þórs jafnt og þétt og Þórsarar virtust hreinlega alveg hættir. Gestirnar sem báru enga virðingu fyrir heimamönnum áttu leikhlutann alvega skuldlausann og voru ekki langt frá því að jafn leikinn og koma honum í framlengingu. Leikhlutann unnu gestirnir 14-25 og aðeins tvö stig skildu liðin af þegar leiknum lauk 90-88.
 
Bestu leikmenn Þórs voru þeir Darko Milosevic sem skoraði 26 stig og svo Sigmundur Óli Eiríksson sem lék frábærlega og skoraði 19 stig. Næstir komu þeir Ólafur Aron og Óðinn Ásgeirsson með 14 hvor og Sindri Davíðsson 10.
 
Hjá Reyni var Guðmundur Auðunn Gunnarsson stigahæstur með 30 stig, Eyþór Pétursson 17 og Eigill Birgisson 16.
 
Eftir sigurinn eru Þórsarar sem fyrr í fimmta sæti deildarinnar nú með 20 stig þegar aðeins einni umferð er ólokið. Þór sækir Breiðablik heim í loka umferðinni  í leik sem fram fer í Smáranum föstudagskvöldið 22. mars.
 
 
 
Mynd og umfjöllun/ Páll Jóhannesson