Í mörg horn er að líta þegar hugað er að leikjum kvöldsins en flestra augu beinast vafalítið að slag Fjölnis og ÍR í Domino´s deild karla. Leikur liðanna hefst kl. 19:15 í Dalhúsum og von á fjölmenni hjá báðum liðum enda mikið í húfi.
 
Fjölnismenn sitja á botni deildarinnar með 8 stig en ÍR-ingar eru í 10. sæti með 10 stig. Sigur hjá ÍR dugir til að jafna Tindastól að stigum en Stólarnir hafa betur innbyrðis gegn ÍR með 12 stig í 9. sæti deildarinnar. Í næstu umferð mætast svo ÍR og Tindastóll og ætti það að verða ekki síðri slagur en boðið verður upp á í Dalhúsum í kvöld.
 
Hafi Fjölnir sigur í leik kvöldsins geta þeir komist upp í 10 stig og bundið enda á tíu leikja taphrinu sína í deildinni. Fjölnir er eins og áður segir á botninum en hefur betur innbyrðis gegn KFÍ og ÍR svo sigur hjá gulum í kvöld kemur þeim úr fallsæti og setur ÍR á botninn með Ísfirðingum. Eftir leik kvöldsins á KFÍ þó leik til góða þar sem fresta varð viðureign þeirra í gær gegn Grindavík.
 
Einn leikur er svo í úrvalsdeild kvenna en þá mætast Snæfell og Grindavík kl. 19:00 í Stykkishólmi. Fresta varð þessum leik síðastliðinn miðvikudag vegna vonskuveðurs.
 
Leikir kvöldsins:
 
17:00 Grindavík – Stjarnan – drengjaflokkur/bikar
19:00 Snæfell – Grindavík – Domino´s deild kvenna
19:15 Reynir Sandgerði – Haukar – 1. deild karla
19:15 Fjölnir – ÍR – Domino´s deild karla
19:15 Hamar – Höttur – 1. deild karla
20:00 Valur – ÍA – 1. deild karla
20:00 Þór Akureyri – Laugdælir – 1. deild kvenna
20:00 Stjarnan – KFÍ – 1. deild kvenna
20:30 Mostri – Smári – 2. deild karla