Það vantar ekki stórleikina í Reykjanesbæ í dag en Domino´s deildir karla og kvenna verða í eldlínunni. Í Domino´s deild kvenna mætast Njarðvík og Keflavík kl. 16:30 í Ljónagryfjunni en þetta er leikur sem fresta varð á dögunum sökum óveðurs. Þá eru tveir leikir í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla.
Domino´s deild karla, 8-liða úrslit kl. 19:15
KR – Þór Þorlákshöfn (KR leiðir 0-1)
Keflavík – Stjarnan (Stjarnan leiðir 1-0)
Segja má að úrslitin í Þorlákshöfn hafi komið nokkuð á óvart í fyrstu viðureign Þórs og KR. Lokatölur voru þar 83-121 KR í vil! Martin Hermannsson setti þá met og varð yngstur yfir 30 stiga múrinn í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar, það met var síðan slegið degi síðar af kollega hans úr Njarðvík, Elvari Má Friðrikssyni. 121 stig hjá KR á útivelli í úrslitakeppninni í venjulegum leiktíma er þriðja mesta stigaskorið í úrslitakeppninni hjá gestaliði frá því árið 1984 eða síðan úrslitakeppnin hóf göngu sína. Metið á Keflavík sem settu 132 stig á Hauka í úrslitakeppninni árið 1999 og það vantaði ekki mikið upp á að KR tæki 2. sætið því 122 stig er það næstmesta og þar urðu Haukar fyrir barðinu á Grindavík í úrslitakeppninni árið 1995. Hvað sem öllum metum líður þá dugir KR sigur í kvöld til að tryggja sér sæti í undanúrslitum en takist Þór að vinna verður oddaleikur í Þorlákshöfn á Skírdag.
Í Toyota-höllinni í kvöld eru það Garðbæingar sem geta tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri en þeir höfðu öruggan sigur í fyrsta leiknum með sterkum síðari hálfleik. Sá fyrri var bráðfjörugur og samtals 104 stig skoruð í fyrrihálfleik þar sem Stjarnan leiddi 54-50 í leikhléi. Heimamenn í Garðbæ voru nokkuð sterkari í síðari hálfleik og kláruðu leikinn af öryggi.
Það er vissara að mæta tímanlega í DHL Höllina og Toyota-höllina í kvöld en leikir kvöldsins eru ekki til sýningar hjá Stöð 2 Sport. Karfan.is verður vitaskuld á báðum stöðum og mun greina ítarlega frá leikjunum í máli og myndum.
Mynd/ tomasz@karfan.is