Í kvöld fara fram tveir leikir í 8-liða úrslitum í Domino´s deild karla. Venju samkvæmt hefjast báðir leikirnir kl. 19:15. Njarðvík tekur á móti Snæfell í Ljónagryfjunni og verður leikurinn í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Þá mætast Skallagrímur og Grindavík í Borgarnesi en fyrir kvöldið í kvöld leiða bæði Snæfell og Grindavík 1-0 í sínum rimmum.
 
Njarðvík-Snæfell (1-0 fyrir Snæfell)
Fyrsti leikur liðanna í Stykkishólmi var æsispennandi þar sem Snæfell gerði sjö síðustu stig leiksins og vann eins stig sigur. Vinni Snæfell í kvöld komast þeir í undanúrslit. Bæði Snæfell og Njarðvík féllu út í 8-liða úrslitum á síðustu leiktíð og vilja liðin vafalítið meira fyrir sinn snúð þetta tímabilið og ráð að mæta tímanlega í Ljónagryfjuna því viðureignin í Hólminum var mögnuð!
 
Skallagrímur-Grindavík (1-0 fyrir Grindavík)
Fjórir liðsmenn Grindavíkur rufu 20 stiga múrinn í fyrsta leiknum í Röstinni og fyrirfram var vitað að nýliðar Borgnesinga myndu eiga fullt í fangi með ríkjandi meistara. Fjósið er sterkt heimavígi og má gera ráð fyrir stórsigri heimamanna á pöllunum, hvort það skili sér svo inn á parketið og jafnvel dugi til að jafna seríuna verður að koma í ljós.
 
Mætum tímanlega á völlinn í kvöld og sýnum jákvæðan stuðning!
 
Mynd með frétt/ Eyþór Benediktsson