Í kvöld fer fram svakaleg umferð í Domino´s deild karla. Jafnvel þó grannaglíma Njarðvíkur og Keflavíkur eigi sér stað þá loga víðar eldar því Grindvíkingar geta orðið deildarmeistarar og Fjölnir getur fellt KFÍ og ÍR. Við erum að tala um sex hörku slagi og allir hefjast þeir vitaskuld kl. 19:15. Í kvöld er ráðlegt að spara við sig rafmagnið og setja aurana í aðgöngumiða á Domino´s deild karla!
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla, 19:15
 
Stjarnan – KFÍ
Grindavík – Fjölnir
ÍR – Tindastóll
Njarðvík – Keflavík
Þór Þorlákshöfn – Snæfell
KR – Skallagrímur
 
Grindavík tekur á móti Fjölni í Röstinni í kvöld, Grindvíkingum nægir sigur til þess að verða deildarmeistari því þeir hafa betur innbyrðis gegn Snæfell. Andstæðingar þeirra, Fjölnismenn, geta, ef KFÍ og ÍR tapa sínum leikjum í kvöld, fellt bæði liðin með sigri í Grindavík.
 
Skallagrímsmenn hafa tryggt sæti sitt í deildinni og hafa bitið verulega frá sér undanfarið þrátt fyrir að hafa misst frá sér annan erlenda leikmanninn sinn. Þeirra verk verður að fara í DHL Höllina og freista þess að ná í tvö stig þar sem jafnan eru ekki auðsótt. Í Þorlákshöfn verður svakalegur slagur liðanna í 2. og 3. sæti þegar uppeldisfélagarnir Benedikt Guðmundsson og Ingi Þór Steinþórsson leiða saman hesta sína.
 
Viðureignir Njarðvíkur og Keflavíkur þarf vart að kynna fyrir fólki og við ráðleggjum þeim sem ætla sér á þennan sögulega bardaga liðanna að mæta tímanlega í Ljónagryfjuna, þetta er alltaf ávísun á veislu. Síðast þegar liðin mættust í deild þurfti að framlengja og eitt stig skildi þau að í lokin.
 
Tindastólsmenn eiga svo vandasamt verk fyrir höndum sem og andstæðingar þeirra ÍR, þarna mæta tvö lið sem þurfa lífsnauðsynlega á þeim tveimur stigum sem í boði eru að halda. Ísfirðingar fá svo ærið verkefni í Ásgarði, tvö rándýr stig í boði og Jakamenn að mæta einu heitasta liði landsins um þessar mundir.
 
Í gær birtum við greinarkorn um þau sæti sem liðin geta endað í að lokinni deildarkeppni og vísum við í hana aftur hér.
 
Mynd/ Tomasz – Pettinella og félagar í Grindavík geta orðið deildarmeistarar í úrvalsdeild karla í kvöld.