KR sendi Þór Þorlákshöfn í sumarfrí í kvöld þegar liðin mættust í sinni annarri viðureign í 8-liða úrslitum Domino´s deild karla. Eftir húðstrýkingu í fyrsta leik mættu Þórsarar betur stemmdir í vesturbæinn en höfðu að lokum ekki erindi sem erfiði. KR var allan tímann við stjórnvölin en Þór átti nokkrar góðar rispur en þær dugðu ekki til og KR vann seríuna 2-0. Lokatölur í DHL Höllinni í kvöld voru 93-83 KR í vil.
 
Finnur Atli Magnússon gerði fyrstu stig leiksins fyrir KR af vítalínunni en það tók bæði lið rúma mínútu að koma boltanum í gegnum netið. Darrell Flake var fljótur að svara á hinum endanum með stökkskoti. Helgi Magnússon kom sínum mönnum í 7-2 með þriggja stiga körfu og fjölmennir stuðningsmenn KR létu vel í sér heyra á pöllunum fyrir vikið. Eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 15-6 fyrir KR og strax farið að hitna í kolunum, vígamennirnir Guðmundur Jónsson og Brynjar Þór Björnsson slógust frá uppkasti og það snöggsauð á Guðmundi sem uppskar óíþróttamannslega villu fyrir að hrinda Brynjari. Við það fagnaði KR bekkurinn helst til of líflega að mati dómara leiksins og uppskáru tæknivíti fyrir vikið. Skammt stórra högga á milli.
 
KR-ingar juku muninn í 17-6 en þar var ,,Kristó-special” í boði, innkast og Kristófer greip erfiðan bolta og tróð viðstöðulaust, glæsileg tilþrif og neytið á meðan nefi stendur því drengsi er á útleið eftir þetta tímabil.
 
Grétar Ingi Erlendsson fékk snemma tvær villur í leiknum og ekki leið á löngu uns Emil Karel Einarsson var mættur á parketið en hann kom með góða baráttu inn í lið gestanna. Heimamenn í KR voru þó engu að síður miklu betri þennan fyrsta leikhluta og leiddu 27-14 að honum loknum. Helgi Magnússon var kominn með 9 stig hjá KR eftir fyrstu 10 mínúturnar en þeir Darrell og Emil báðir með 4 stig í liði Þórs.
 
David Jackson fékk sína þriðju villu í upphafi annars leikhluta en Þórsarar voru engu að síður búnir að þétta vörn sína frá þeim fyrsta. Emil Karel hélt áfram að blása vindi í Þórsseglin og röndóttir heimamenn héldu KR-ingum stigalausum fyrstu þrjár mínútur annars leikhluta. Emil minnkaði muninn í 29-19 með þriggja stiga körfu en áfram voru gestirnir þó í vandræðum gegn sterkri vörn KR sem undirritaður kannaðist betur við en þann varnarleik sem heimamenn buðu upp á mest alla deildarkeppnina.
 
Félagarnir Martin Hermannsson og Kristófer Acox buðu upp á glæsileg tilþrif í öðrum leikhluta, Martin í hraðaupphlaupi gaf sendingu aftur fyrir bak og fann þar Kristófer Acox sem var ekkert að leggja boltann spjaldið og ofaní, nei nei, hann tróð með þvílíkum látum og stuðningsmenn KR ærðust af fögnuði og hringurinn þurfti smá hnjaskaðstoð eftir lætin. Kristófer var svo aftur á ferðinni þegar leiktíminn í fyrri hálfleik rann út og kom KR í 46-36 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Annar leikhluti var mun jafnari en sá fyrsti en bæði lið komin með menn í villuvandræði, Brandon og Finnur með 3 villur í liði KR og þeir Grétar, David og Emil einnig í liði Þórs. Helgi Magnússon var með 12 stig hjá KR í hálfleik og Emil Karel 9 í liði Þórs og byrjunarliðsmenn gestanna einfaldlega víðsfjarri sínu besta en gyrtu þó smávegis í brók þegar Emil mætti á parketið til að rífa þá áfram.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
KR: Tveggja 48,3% – þriggja 33,3% og víti 75%
Þór Þ: Tveggja 42,3% – þriggja 11,1 og víti 64,7%
 
Rétt eins og í öðrum leikhluta skoraði KR ekki fyrr en að liðnum þremur mínútum í þriðja leikhluta. Þar á undan höfðu Þórsarar minnkað muninn í 46-40 og mikill völlur á gestunum. Kristófer Acox var ekki til setunnar boðið og tróð með látum yfir Þórsvörnina. Þetta kveikti í röndóttum því á hinum endanum gerði Brynjar Þór það sem hann er nú jafnan ekki þekktur fyrir og varði skot frá Ben Smith og gott ef það var ekki bara vel fyrir ofan hring. Því næst smellti Brynjar niður tveimur KR þristum með skömmu millibili og staðan orðin 54-40. Loks þegar KR byrjaði síðari hálfleik þá var það með sannkallaðri flugeldasýningu.
 
Gestirnir úr Þorlákshöfn létu flugeldasýningu Kristófers og Brynjars ekki slá sig út af laginu heldur héldu inn í 2-11 syrpu og minnkuðu muninn í 56-51 við litla kátínu heimamanna sem fannst fullmikið flautað á sína menn en þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leihkluta höfðu KR-ingar fengið á sig alls 25 villur.
 
Staðan að loknum þriðja leihkluta var 63-55 fyrir KR eftir hnífjafnan þriðja leikhluta og ljóst að menn myndu selja sig dýrt í fjórða og síðasta leikhltuanum.
 
Heimamenn í KR byrjuðu vel í fjórða leikhluta og náðu 9-2 upphafsspretti í lokaleikhlutanum og gestirnir tóku leikhlé í stöðunni 72-57. Þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks reiddi Brynjar Þór hátt til höggs með þrist sem lak niður og staðan 79-58 fyrir KR. Gestirnir úr Þorlákshöfn höfðu því aðeins gert þrjú stig á tæpum fimm mínútum í fjórða leikhluta og það reyndist þeim um megn. Eftir þennan stóra þrist ,,vinkaði” Brynjar Þór bless á Þórsbekkinn og uppskar fyrir þá tilburði tæknivíti frá dómurum leiksins en þetta hafði þó engin önnur áhrif en þau að lunginn af viðstöddum í húsinu þurfti að hrista af sér smá kjánahroll enda óþarfi að sparka í andstæðinginn eftir að hafa lagt hann að velli.
 
Þórsarar náðu að saxa niður muninn og gerðu það vel en sigur KR var aldrei í hættu eftir sterkar upphafsmínútur í loka leikhlutanum. Grænir gestirnir voru orðnir móðir og vissulega hefði það verið allt önnur sería fyrir Þór að hafa Darra Hilmarsson og Baldur Þór Ragnarsson í búning. Meiðsli þessara tveggja sterku leikmanna settu risavaxið strik í reikning silfurliðsins frá síðustu leiktíð.
 
Lokatölur í DHL Höllinni í kvöld reyndust 93-83, Þór brúaði bilið úr 20 stiga mun niður í 10 en KR hélt sjó og er fyrst liða til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Domino´s deildarinnar.
 
Brandon Richardson var stigahæstur í liði KR í kvöld með 22 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Brynjar Þór Björnsson bætti við 19 stigum og Helgi Magnússon gerði 16. Þá var Kristófer Acox með 10 stig og 8 fráköst. Hjá Þór Þorlákshöfn var Benjamin Curtis Smith með 23 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. David Jackson gerði 20 stig og tók 11 fráköst og Emil Karel Einarsson gerði 11 stig, öll í fyrri hálfleik.
 
Mynd/ tomasz@karfan.is
Umfjöllun/ jon@karfan.is