KR hafði öruggan 20 stiga sigur á Skallagrím þegar liðin mættust í Domino´s deild karla í kvöld. Gestirnir úr Borgarnesi mættu þó með læti inn í DHL Höllina og voru funheitir. Röndóttir heimamenn tóku til í sínum málum í leikhléi og slökktu í gestum sínum í síðari hálfleik þar sem fimm leikmenn KR gerðu 13 stig eða meira í leiknum. KR situr nú í 7. sæti deildarinnar með 22 stig en Skallagrímur er sem fyrr í 8. sæti með 14 stig.
 
Þeir Carlos Medlock, Páll Axel Vilbergsson og Hörður Helgi Hreiðarsson brenndu vart úr skoti í fyrri hálfleik og voru Borgnesingar 10 af 17 í þristum fyrstu 20 mínútur leiksins. Skallagrímur leiddi 46-49 í hálfleik og fengu röndóttir greinilega gott orð í eyra í hálfleik enda ekki oft sem lið eru að skella um 50 stigum á röndótta á 20 mínútum í vesturbænum.
 
Í þriðja leikhluta var nokkuð ljóst að KR hafði átt kjarngóða hálfleiksræðu því varnarleikurinn small saman, gestirnir voru þvingaðir í erfiðari skot og gátu því ekki um jafn frjálst höfuð strokið og í fyrri hálfleik. KR vann þriðja leikhluta 28-16 og héldu Skallagrím svo aðeins í 13 stigum í fjórða leikhluta og voru umtalsvert betri á vel flestum sviðum síðari 20 mínútur leiksins.
 
KR lék í kvöld á Brandon Richardson sem er að glíma við smávægileg meiðsli en það kom ekki í veg fyrir sigurinn að þessu sinni. Liðsboltinn gekk vel hjá röndóttum í kvöld sem voru með 24 stoðsendingar í þeim 33 körfum sem þeir gerðu í leiknum.
 
Karfan.is náði örstutt í skottið á aðstoðarþjálfara KR í kvöld: ,,Þetta var skref í rétta átt, næst er það KFÍ á útivelli og það verður hörkuleikur og mikilvægur undirbúningur fyrir úrslitakeppnina,” sagði Finnur Freyr Stefánsson.
 
Finnur Atli Magnússon gerði 23 stig og tók 5 fráköst í liði KR í kvöld og Martin Hermannsson bætti við 22 stigum, 6 fráköstum og 7 stoðsendingum. Hjá Skallagrím var Carlos Medlock með 35 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar. Hörður Helgi Hreiðarsson bætti við 19 stigum og þá var Páll Axel Vilbergsson með 18 stig og 7 fráköst.
 
 
Mynd/ Sport.is