KR er bikarmeistari í drengjaflokki eftir öruggan 84-106 sigur gegn Stjörnunni. Martin Hermannsson var valinn besti maður leiksins með 29 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar í liði KR. Vesturbæingar slitu sig snemma frá gestgjöfunum og voru við stýrið nánast frá upphafi til enda í dag.
 
Heimamenn í Garðabæ voru full ákafir í varnarleik sínum í upphafi leiks og sendu röndótta gestina nokkrum sinnum á línuna. KR-ingar fyrir tilstilli Martins Hermannssonar fóru að síga fram úr og í stöðunni 10-16 KR í vil tóku Garðbæingar leikhlé. Skömmu eftir leikhlé kom Gunnar Ingi Harðarson KR í 10-23 með þrist og að sama skapi vildi lítið niður hjá Stjörnumönnum og KR leiddi 14-25 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Stjarnan gerði fjögur fyrstu stigin í öðrum leikhluta áður en Gunnar Ingi Harðarson mætti með þrist fyrir KR. Áfram var vörn vesturbæinga þétt á meðan einsleitur sóknarleikur Garðbæinga skilaði litlu. KR-ingar leiddu 33-47 þegar fyrri hálfleikur var við það að klárast en þá brunaði Dagur Kár Jónsson upp völlinn og setti niður glæsilegan flautuþrist og minnkaði muninn í 36-47 fyrir hálfleik, nauðsynlegt og jákvætt nesti fyrir Garðbæinga inn í síðari hálfleikinn.
 
Hugi Hólm fór mikinn í liði KR í síðari hálfleik, röndóttir léku Stjörnuteiginn grátt og prjónuðu sig að vild upp að körfunni án mikillar fyrirstöðu hjá Stjörnuvörninni. Oddur Kristjánsson snögghitnaði hjá Stjörnunni í þriðja leikhluta en sama hvað Stjörnumenn reyndu þá áttu KR-ingar alltaf svör. Hugi Hólm lék sér að þeim og þegar hann var ekki að skóla menn til þá tók Martin Hermannsson við keflinu og þannig rúllaði þetta hjá KR í dag. Röndóttir settu 33 stig á Stjörnuna í þriðja leikhluta og leiddu 60-80 fyrir þann fjórða og munurinn 20 stig þrátt fyrir vaska framgöngu hjá Oddi í Stjörnuliðinu.
 
Hugi Hólm fékk snemma sína fimmtu villu í liði KR sem vesturbæingar mótmæltu kröftuglega og höfðu líkast til nokkuð til síns máls. Einn þeirra besti leikmaður farinn af velli að því er virtist fyrir litlar ef nokkrar sakir. Gunnar Ingi Harðarson undirstrikaði svo hvernig dagurinn var hjá KR þegar þegar hann setti þrist beint á móti körfunni sem fór í spjaldið og ofaní og staðan 73-90.
 
Lokatölur reyndust svo 84-106 KR í vil og þægilegur sigur vesturbæinga staðreynd þar sem Hugi Hólm og Martin Hermannsson fóru fyrir vaskri sveit KR-inga og þeir Högni Fjalarsson, Gunnar Ingi Harðarson og Þorgeir Blöndal áttu allir sterka spretti og Þorgeir meira að segja daðraði við þrennuna með 10 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
Hjá Stjörnunni var Oddur Kristjánsson með 27 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar og Dagur Kár Jónsson bætti við 26 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum.
 
 
 
Dómarar leiksins: Jón Guðmundsson og Jakob Árni Ísleifsson
 
nonni@karfan.is