Það var ekkert annað en að duga eða drepast fyrir KFÍ í kvöld og greinilega gerðu leikmenn sér fulla grein fyrir því. KFÍ tók forystu strax frá upphafi leiks og lét hana aldrei af hendi. Sannfærandi sigur í lokaleik og heilladísirnar voru KFÍ svo sannarlega í vil þannig sæti í efstu deild að ári var tryggt.
 
Það var ótrulegt að fylgjast með fyrsta leikhluta þar sem KFÍ hafði tögl og hagldir. KR virtist á tímabili ekki eiga neitt erindi í leikinn og var staðan 35-20 eftir 10 min leik. Það var samt ekki sopið kálið þótt í ausuna væri komið og KR er auðvitað með frábæra leikmenn eins og allir vita, enda komu þeir sterkir til baka í öðrum leikhluta. Þeir unna hann 13-26 þannig að allir sjá hversu kaflaskipt leikurinn var í fyrri hálfleik. Staðan fyrir leikhlé var því 48-46 og spennandi leikur framundan.
 
Leikmenn KFÍ mættu tilbúnir í baráttun í þriðja leikhluta og náðu að spila aftur nokkuð góða vörn. KR lenti í þeirri stöðu að þurfa að brjóta mikið og skoruðu leikmenn KFÍ fyrstu 8 stig leikhlutans af vítalínunni og náðu 10 stiga áhlaupi strax á fyrstu mínútunum. Þá var KR komið í nokkra gryfju og það tekur alltaf svolítið á að þurfa að elta andstæðinginn allan leikinn. KR liðið má eiga það að í lokaleikhlutanum sýndu þeir mikla grimmd og gerðu mjög harða atlögu að forskoti heimamanna. Það dugði þó ekki til að þessu sinni og KFÍ stóðst áhlaupið og stýrði besti maður vallarins, Damier Pitts sínum mönnum til sigurs. Nefna má að Damier setti niður 19 af 20 vítaskotum í leiknum.
 
Úrslit annarra leikja voru KFÍ í vil og þegar kynnir vallarins tilkynnti þau að leik loknum braust út sannkölluð sigurhátið á Jakanum og sást bros á hverri vör heimamanna. KFÍ komið í sumarfrí og geta nú hafið undirbúning næsta tímabils. Spennandi að vita hvaða íslensku leikmenn koma til með að styrkja Ísfirðinga að ári, en það er hægt að lofa þeim því að þar munu þeir eignast trygga stuðningsmenn á pöllunum í Jakanum.
 
KR-ingar eiga framundan spennandi úrslitakeppni og munu örugglega nýta sér úrslit þessa leiks til innblásturs fyrir baráttuna þar. Enn á ný voru það þeir Martin og Kristófer sem undirrituðum fannst bera af í liði þeirra og einnig var Finnur Atli á köflum sterkur. Virðist sem svo að 4:1 reglan nýja, myndi ekki koma svo illa við lið KR þetta tímabilið.
 
KFÍ-KR 89-84 (35-20, 13-26, 23-16, 18-22)
 
 
KFÍ: Damier Erik Pitts 33/6 fráköst/7 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 24/11 fráköst, Tyrone Lorenzo Bradshaw 14/10 fráköst/4 varin skot, Kristján Pétur Andrésson 8/8 fráköst, Hlynur Hreinsson 4, Jón Hrafn Baldvinsson 4/5 fráköst, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 2, Hákon Ari Halldórsson 0, Stefán Diegó Garcia 0, Óskar Kristjánsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0.
 
 
KR: Kristófer Acox 14/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 14/8 fráköst, Martin Hermannsson 13/7 fráköst/5 stoðsendingar, Helgi Már Magnússon 10/4 fráköst, Brandon Richardson 10/8 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 8, Brynjar Þór Björnsson 8, Darshawn McClellan 5/9 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 2.
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Steinar Orri Sigurðsson.
 
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Halldórsson