Fjórði leikur dagsins í bikarúrslitum yngri flokka var viðureign Keflavíkur og Njarðvíkur í unglingaflokki kvenna þar sem Keflavík sigraði með naumyndum 63-62. Leikurinn var gríðarlega jafn allan tímann. Njarðvík byrjaði á að leiða en svo tók Keflavík yfir og leiddi þangað til í seinni hluta þriðja leikhluta þegar Njarðvík komst yfir en Keflvík voru fljótar að komast yfir aftur. Í fjórða leikhlutanum leiddi Keflavík en þó aldrei mikið og Njarðvík alltaf inní leiknum. Lokaspretturinn var gríðarlega spennandi en Keflavík hélt út.
 
 
Byrjunarlið Keflavíkur: Ingunn Embla Kristínardóttir, Telma Lind Ásgeirsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Sandra Lind Þrastardóttir og Aníta Eva Viðarsdóttir.
 
Byrjunarlið Njarðvíkur: Ásdís Vala  Freysdóttir, Sara Dögg Margeirsdóttir, Emilía Grétarsdóttir, Guðlaug Björt Júlíusdóttir og Erna Hákonardóttir.
 
Njarðvík komust í 0-4 en Keflavík voru fljótar að svara og jafna 4-4. Þannig gekk gangur leiksins næstu mínúturnar, liðin skiptust á að skora. Keflavík komst svo yfir eftir skemmtilegan snúning og sniðskot hjá Söru Rún Hinriksdóttur í stöðunni 14-12. Ásdís Vala Freysdóttir nældi sér í þrjár villur í fyrsta leikhlutanum og því í bullandi villuvandræðum. Staðan 21-18 fyrir Keflavík í leikshluta lok og mjög jafnt á milli liðanna. Hvorugt liðið hefur gefið tommu eftir.
 
Einhver vandræði urðu með leikklukkuna og varð tæplega 5 mínútna töf á leiknum í upphafi annars leikhluta. Mikið jafnræði var með liðunum og skorað á víxl. Ingunn Embla Kristínardóttir átti skemmtilega þriggjastigakörfu sem skoppaði af hringnum og hátt upp á spjaldið aftur ofan á hringinn og ofan í. Liðin eru það samstíga að ef þau eru ekki að skora á víxl þá eiga þau bæði jafn slæma takta. Með tæpar þrjár mínútur til hálfleiks komst Keflavík loksins meira en 5 stigum yfir þegar að Sara Rún skoraði og setti víti að auki. Staðan 37-30. Ingunn Embla jók svo muninn í 12 stig eftir að hafa sett niður þrist og svo skömmu síðar tvö vítaskot. Keflavík virtist vera að fara stinga af en þá kom upp smá kraftur í Njarðvík og þær minnka muninn í 8 stig fyrir hálfleik.
 
Stigahæstar í hálfleik hjá Keflavík voru Sandra Lind Þrastardóttir með 12 stig/10 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir með 10 stig/7 fráköst og Ingunn Embla Kristínardóttir með 10 stig. Hjá Njarðvík voru stigahæstar: Guðlaug Björt Júlíusdóttir 13 stig/3 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 7 stig og Aníta Kristmundsdóttir Carter 6 stig.
 
Njarðvík hóf þriðja leikhlutann á 6-0 áhlaupi þar sem Ásdís Vala Freysdóttir skoraði 4 stig og minnkuðu muninn í 2 stig, 42-40. Þá var aftur komið að gríðarlega jöfnum kafla á milli liðanna þar sem skipst var á að skora körfur. Njarðvík komst aftur yfir í stöðunni 46-47 þegar Eva Rós Guðmundsdóttir skoraði fyrsta stig sitt í leiknum. Sú forusta endist í mjög skamma stund því Aníta Eva Viðarsdóttir setti þrist í næstu sókn og svo bætti Ingunn Embla tveimur stigum við af vítalínunni. Keflavík leiddi 53-48 að loknum leikhlutanum.
 
Keflavík skorar ekki fyrstu stigin sín í fjórða leikhluta fyrr en Njarðvík eru búnar að jafna en þá svara þær strax í næstu sókn. Emilía Grétarsdóttir jafnar strax aftur en Keflavík kemur sér yfir aftur. Eftir rúmar tvær mínútur án stiga þá skorar Guðlaug Björt Júlíusdóttir góða körfu fyrir Njarðvík og stuttu síðar minnkar Emilía muninn í eitt stig, 60-59. Keflavík ekki búnar að skora í rúmar fjóra og hálfa mínútu en ekki búnar að missa sjálfstraustið. Loks skorar Keflavík þegar Telma Lind Ásgeirsdóttir setur seinna vítið sitt niður og munurinn því 2 stig með eina og hálfa mínútu eftir af leiknum. Loksins tókst Evu Rós Guðmundsdóttir að skora úr opnum leik eftir margar góðar tilraunir og það hefði ekki getað komið á betri tíma, 62-61. Keflavík brýtur svo á Guðlaugu og jafnar hún leikinn með því að setja annað af vítaskotunum sitt niður. Njarðvík brjóta svo á Söndru Lind Þrastardóttur þegar það eru aðeins 3.4 sek eftir af leiknum eftir að hafa spilað feikna góða vörn á Keflavík í rúmar 18 sek. Hún klúðraði fyrra skotinu en setti seinna skotið. Njarðvík tók leikhlé og freistaði þess að setja upp leikkerfi fyrir gott skot en sendingin í innkastinu fór beint á Söndru Lind sem fékk að standa auð á meðan loka sek. töldu niður.
 
Stigahæstar hjá Keflavík voru: Ingunn Embla Kristínardóttir 18 stig/5 fráköst/2 stolnir boltar, Sara Rún Hinriksdóttir 17 stig/12 fráköst/2 varin skot, Sandra Lind Þrastardóttir 14 stig/15 fráköst/3 stolnir boltar.
 
Stigahæstar hjá Njarðvík voru: Guðlaug Björt Júlíusdóttir 23 stig/6 fráköst/4 stoðsendingar, Emilía Grétarsdóttir 11 stig/10 fráköst, Ásdís Vala Freysdóttir 8 stig/3 stoðsendingar/2 varin skot.
 
Leikmaður leiksins: Sara Rún Hinriksdóttir
 
 
 
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:

@Karfan_is