Keflvíkingar eru bikarmeistarar í stúlknaflokki eftir stóran og öruggan 81-45 sigur gegn Haukum. Keflvíkingar gerðu út um leikinn á fyrstu tíu mínútunum og eftirleikurinn var auðveldur. Bríet Sif Hinriksdóttir var valin besti maður leiksins með 18 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Miðherjar liðanna opnuðu leikinn í dag, Sandra Lind með tvö stig í Haukateignum og Lovísa Björt á hinum endanum fyrir Hauka. Keflvíkingar tóku þótt fljótt við stýrinu og komust í 11-2 þegar Guðrún Ámundadóttir þjálfari Hauka bað um leikhlé. Keflavíkurkrafturinn hafði þó ekki lokið sér af og komust Keflvíkingar í 3-16 en 12 af þessum 16 stigum Keflavíkur skoruðu tvíburasysturnar Bríet og Sara Hinriksdætur.
 
Vörn Hauka var hriplek og þá var maður á mann vörn Keflavíkur skæð og kom bakvörðum Hauka oftsinnis í vandræði. Um leið og Haukar komu boltanum sómasamlega yfir miðju voru þær hættulegar, sér í lagi ef þeim tókst að finna Lovísu Björt í teignum en hún varð frá að víkja og hafa hægt um sig þar sem hún fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 10-37 Keflavík í vil! Þóra Kristín Jónsdóttir átti lokaorðið fyrir Hauka í fyrsta leikhluta með þriggja stiga körfu en rauðar áttu vandasamt verk fyrir höndum og þá aðallega að þétta vörnina.
 
Haukar þéttu vörnina í öðrum leikhluta en áttu engu að síður áfram bágt gegn grimmri vörn Keflavíkur. Haukar urðu fyrir smá áfalli þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks þegar dæmd var tvívilla á Lovísu Björt og Söndru Lind en það var fjórða villan hjá Lovísu sem hélt á bekkinn og Haukar því miðherjalausar það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Keflvíkingar voru öllu rólegri heldur en í fyrsta leikhluta og gerðu aðeins þrettán stig gegn 14 hjá Haukum og staðan því 50-24 fyrir Keflavík í hálfleik.
 
Sara Rún Hinriksdóttir var með 13 stig í hálfleik hjá Keflavík og Bríet Sif Hinriksdóttir með 11. Hjá Haukum var Þóra Kristín Jónsdóttir með 7 stig í hálfleik.
 
Þriðji leikhluti var einnig jafn, Haukar byrjuðu í svæðisvörn en það var svona sama hvað þær reyndu, munurinn var einfaldlega orðinn of mikill. Ingunn Embla Kristínardóttir átti góða spretti hjá Keflavík í síðari hálflleik en staðan að loknum þriðja leikhluta var 65-38 fyrir Keflavík. Sylvía Rún Hálfdánardóttir lokaði þriðja leikhluta fyrir Hauka með körfu og villu að auki svo rauðar fengu smá meðvind inn í fjórða leikhluta en það dugði ekki til. Lokatölur reyndust 81-45 eins og áður greinir.
 
Bríet Sif Hinriksdóttir, besti maður leiksins, gerði 18 stig, tók 11 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Næst henni var Sara Rún Hinriksdóttir með 17 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar og Ingunn Embla Kristínardóttir gerði 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Sylvía Rún Hálfdánardóttir gerði 12 stig og tók 11 fráköst í liði Hauka og Þóra Kristín Jónsdóttir bætti við 9 stigum og 4 fráköstum.
 
 
Dómarar leiksins: Jón Bender og Steinar Orri SIgurðsson
 
nonni@karfan.is