Keflvíkingar eru bikarmeistarar í 9. flokki kvenna eftir öruggan sigur á stöllum sínum úr Njarðvík. Keflavík gerði snemma út um leikinn en þær skoruðu 14 fyrstu stig leiksins og litu aldrei við eftir það. Lokatölur 59-16 þar sem Thelma Dís Ágústsdóttir var valin besti maður leiksins með 19 stig og 13 fráköst.
 
Keflvíkingar hófu daginn með látum og gerðu 14 fyrstu stig leiksins áður en Njarðvíkingar komust á blað. Thelma Dís Ágústsdóttir fór fyrir Keflvíkingum með 10 stig í hálfleik en Ása Böðvarsdóttir-Taylor var með fimm stig í liði Njarðvíkinga. Grænar áttu í mesta basli með að finna körfuna í fyrri hálfleik með 11% nýtingu í teignum og 14,2% í þriggja en Keflvíkingar léku þétta og grimma vörn svo flest skot hjá grænum komu undir mikilli pressu.
 
Ef Njarðvíkingum gekk illa að skora á stöllur sínar í fyrri hálfleik þá var þriðji leikhluti afleitur. Keflavík vann þessar átta mínútur 18-0 og þar með var björninn endanlega unninn. Staðan eftir þriðja leikhluta var 7-52 Keflavík í vil en Njarðvíkingar réðu ekkert við hið öfluga par sem þær Thelma Dís Ágústsdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skipa.
 
Njarðvíkingar voru þór fljótir að skora í fjórða leikhluta og unnu hann 9-7 en skaðinn var þegar skeður. Keflvíkingar sigldu heim öruggum 16-59 sigri og ljóst að mikið má koma til hjá öðrum liðum í þessum árgangi ætli þau sér að skáka Keflavík sem í dag unnu áreynslulítinn bikarsigur á grönnum sínum úr Njarðvík.
 
Thelma Dís Ágústsdóttir var eins og áður greinir valin besti maður leiksins með 19 stig og 13 fráköst en henni næst var Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 17 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Ása Böðvarsdóttir-Taylor með 11 stig.
 
 
Dómarar leiksins: Rúnar Birgir Gíslason og Halldór Geir Jensson 
 
nonni@karfan.is