Íris Sverrisdóttir leikmaður Hauka er á batavegi eftir að hafa slitið nánast allt sem hægt var að slíta í hné sínu á síðasta tímabili í leik gegn Njarðvík. Íris tók sér tíma og spjallaði við okkur hjá Karfan.is nú í dag.  ”Eftir langan tíma í leiðinlegum en nauðsynlegum endurhæfingaræfingum, sem líkjast æfingunum í Call on me myndbandinu, þá er ég loksins, ári seinna, farin að reima á mig hlaupaskóna. Þetta er því allt á réttri leið. Ég hef verið reglulega hjá sjúkraþjálfara og verið dugleg að gera æfingar sem hún hefur sett mér fyrir. Einnig er ég nýbyrjuð í fjarþjálfun hjá Þórarni Brynjari Kristjánssyni sem ég hef mikla trú á að eigi eftir að hjálpa mér á næsta tímabili.”
 
Hvernig hefur þessi tími verið fyrir þig utan vallar?
Hann hefur verið mjög erfiður ef ég á að segja eins og er og þá sérstaklega fyrstu 6 mánuðirnir þar sem ég þurfti að bíða svo lengi eftir aðgerðinni. Þá var einstaklega erfitt að þurfa að horfa á liðið sitt spila í úrslitaeinvíginu og geta ekkert gert til þess að hjálpa þeim. En þrátt fyrir þetta þá hef ég heldur betur nýtt tímann sem fylgir því að vera ekki í körfuboltanum enda þekki ég ekkert annað en að veturinn fari allur í hann. Ég hef nýtt hann vel í að heimsækja fjölskylduna mína utan landssteinanna og komist á alla minniháttar atburði sem hafa verið.”
 
Hvenær má eiga von á Írisi aftur á parketið og hverjir munu koma til með að njóta krafta hennar?
 
“Ég er að vona að það verði í maí – júní svo ég nái að koma mér í gott körfuboltaform fyrir næsta tímabil.  Mér finnst alltaf freistandi að fara aftur heim í gömlu góðu Grindavík en mér finnst við Haukastelpur eiga enn óklárað verk frá því síðasta vor. Svo verður líka eitthver að vera til staðar til að hafa hemil á Gunnhildi og einnig er kominn tími á að skipta Badda út í fótboltanum eftir slaka frammistöðu hans á vellinum.” sagði Íris að lokum.