Haukar sigruðu í seinasta heimaleik sínum í vetur og stöðvuðu þar með 9 leikja sigurgöngu KR í kvöld, þegar KR kom í heimsókn í 27., og jafnfrant næst seinustu, umferð Dominosdeildar kvenna. Haukar áttu ansi hreint magnaðan annan leikhluta þar sem þær yfirspiluðu KR 30-11 og dúndruðu niður 6 þristum, þar af voru Margrét Rósa Hálfdanardóttir og Dagbjört Samúelsdóttir sitt hvora tvo. KR komu sterkar til baka og var loka mínúta leiksins ansi hreint spennandi en Haukar héldu það út og sigruðu því 71-65.
 
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
 
Byrjunarlið KR: Helga Einarsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Björg Guðrún Einarsdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir og Shannon McCallum.
 
KR byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvær körfur leiksins en þá skoraði Gunnhildur Gunnarsdóttir 5 stig í á 16 sek. og kom Haukum yfir 5-4. KR komst svo í 5-10 eftir þrista frá Shannon McCallum og Sigrúnu Sjöfn Ámundardóttur. Eftir það voru leikar mjög jafnir og skiptust liðin á körfum til enda leikhlutans sem endaði 13-18.
 
KR byrjuðu annan leikhlutann líka sterkar og skoruði 6 stig gegn 1 stigi hjá Haukum á fyrstu þremur mínútunum. En þá kom gríðarlega góður kafli hjá Haukum þar sem þær gjörsamlega kafsigldu KR 21-0, og það á aðeins fjórum og hálfri mínútu, þar sem fjórir þristar flugu í gegnum netið á körfunni og átti Margrét Rósa Hálfdanardóttir tvo þeirra. Haukar því komnar 11 stigum yfir. Þær bættu svo um betur og leiddu 43-29 í hálfleik.
 
Þriðji leikhlutinn einkenndist af mikilli baráttu þar sem KR hafði aðeins betur og minnkaði muninn niður um 4 stig. Shannon McCallum var það hlutskörpust en hún skoraði 10 fyrstu stig KRinga í leikhlutanum.
 
KR yfirspiluðu Hauka 8-0 á fyrstu þremur mínútum fjórða leikhlutans og minnkuðu muninn niður í aðeins 2 stig þegar Siarre Evans náði að svara fyrir Hauka þegar hún smellti niður þrist. Rannveig Ólafsdóttir skoraði þá góðan þrist fyrir KR og jafnar leikinn. Sigrún Sjöfn Ámundardóttir kemur þá KR yfir, 61-63, með því að nýta bæði vítaskotin sín. Evans jafnaði leikinn stuttu síðar en síðan var ekkert skorað næstu tvær mínúturnar og KR voru mjög lánlausar þar sem að þeim tókst að vera heila mínútu í sókn þar sem að þær tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. Loks náðu Haukar varnarfrákastinu og var það gríðarlega mikilvægt því Margrét Rósa Hálfdanardóttir kemur Haukum 3 stigum yfir í næstu sókn með rétt rúmar 30 sek. til leiksloka. Margrét Rósa fer svo útaf með fimmtu villuna sína eftir að hafa brotið á Shannon McCallum. McCallum nýtir bæði vítin sín og staðan 66-65. KRingar taka þá ákvörðun að brjóta ekki og freista þess að ná frekar boltanum en Evans refsaði þeim illa fyrir þá ákvörðun með því að komast alla leið að körfunni og leggja boltan snyrtilega ofan í, 68-65. KR náði svo ekki að skora og Haukar kláruðu leikinn á vítalínunni.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru Siarre Evans 26 stig/8 fráköst/8 stoðsendingar, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 15 stig/4 fráköst/4 stolnir boltar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 13 stig/7 fráköst. 
 
Stigahæstar hjá KR voru Shannon McCallum 24 stig/13 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Sigrún Sjöfn Ámundardóttir 19 stig/8 fráköst/4 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 6 stig/10 fráköst.
 
Leikmaður Leiksins: Siarre Evans

Mynd/ Úr myndasafni – Frá viðureign fyrr í vetur
 
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:

@Karfan_is