Í kvöld fór fram frestaður leikur Vals og Hauka síðan á Miðvikudag í 25. umferð Dominosdeildar kvenna. Leikurinn var mjög kaflaskiptur á tímum og svo komu tímabil þar allt var í járnum. En Haukar enduðu leikinn á 10-2 kafla, þar sem Margrét Rósa Hálfdanardóttir skoraði 7 stig, og tryggðu sér góðan 69-78 sigur og halda mikilli pressu á Val um sæti í úrslitakeppninni þegar aðeins 3 leikir eru eftir af deildinni.
 
Byrjunarlið Vals: Jaleesa Butler, Hallveig Jónsdóttir, Þórunn Bjarnadóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir.
 
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
 
Margrét Rósa Hálfdanardóttir hóf leikinn á því að smella niður þrist fyrir Hauka. Liðin skiptust svo á að skora í næstu sóknum. Haukar voru þó aðeins með yfirhöndina og leiddu 9-13 þegar þrjár og hálfmínúta voru eftir af leikhlutanum. Þórunn Bjarnadóttir smellir niður þrist fyrir Val og minnkar muninn í 1 stig með þrjá mínútur eftir af klukkunni. Jaleesa Butler kemur Val svo yfir í næstu sókn á eftir í fyrsta skiptið síðan að þær leiddu í stöðunni 1-0. Valur skipti yfir í pressuvörn og með henni náðu þær að stoppa Hauka sem skoruðu ekkert eftir það og Þórunn skellti í annan þrist sem var meira að segja flautukarfa. Valur leiddi því 22-16 að leikhlutanum loknum.
 
Haukar minnka muninn í 22-20 þegar Jóhanna Björk Sveinsdóttir skorar úr sniðskoti sínu ásamt því að fá villu og setja vítið niður. Margrét Rósa stelur svo boltanum og þrumar niður þirsti og kemur Haukum aftur yfir. Ekkert gekk hjá Val og tókst þeim ekki að skora fyrr en liðnar voru rúmar þrjár mínútur af leikhlutanum. Fram að því voru Haukar búnar að yfirspila þær 12-0. Það lifnaði þá við Val og komu þær með 10-0 áhlaup á Hauka. Eftir það varð jafnræði með liðunum og skiptust þau á körfum. Haukar voru þó aðeins betri og leiddu þar af leiðandi í hálfleik, 36-38.
 
Stigahæstar í hálfleik voru Jaleesa Butler með 14 stig og 9 fráköst fyrir Val og Margrét Rósa Hálfdanardóttir með 12 stig, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta fyrir Hauka.
 
Aftur voru það Haukar sem að byrjuðu betur og skoruðu fjögur fyrstu stigin. Valur var hins vegar ekki eins lengi í gang núna og jafnaði leikinn í 42-42 með 6-0 áhlaupi. Haukar komu sér í smá villuvandræði og voru Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir allar komnar með 3 villur áður en þriðji leikhlutinn var hálfnaður. Valur nýtti sér það og átti Kristrún Sigurjónsdóttir góðan þrist til að koma Val í fimm stiga forustu. Haukar skelltu þá í lás í vörninni og komust aftur yfir með körfu frá Auði Írisi Ólafsdóttur. Þá kom að öðrum jöfnum kafla hjá liðunum en Valur endar svo leikhlutann á því að komast yfir, 58-56, þegar Ragna Margrét Brynjarsdóttir fullkomnar þriggja stiga leik með því að setja sniðskot og víti niður.
 
Mikil barátta var í báðum liðum í upphafi fjórða leikhluta en hvorugu gekk vel að hitta. Þórunn Bjarnadóttir kom Val fjórum stigum yfir með löngum þrist og er hún aldeilis búin að vera sjóðandi fyrir aftan þá línu í undanförnum leikjum. Gunnhildur Gunnarsdóttir var hins vegar fljót að svara með eigin þrist strax í næstu sókn. Allar flóðgáttir opnuðust og bombaði Siarre Evans niður þrist líka og kom Haukum í 64-66. Hallveig Jónsdóttir skoraði svo skemmtilega körfu þegar hún var komin í vandræði undir körfunni en hún náði að vippa boltanum undan höndum varnarmanns Hauka spjaldið ofan í. Staðan 67-68 með rétt rúmar tvær mínútur til leiksloka. Margrét Rósa Hálfdánardóttir splæsti svo í rosa þrist fyrir Hauka og kom þeim fjórum stigum yfir. Hún náði svo mikilvægu sóknarfrákasti og kom boltanum á Siarre Evans sem var brotið á. Hún nýtti reyndar bara annað skotið en það kom ekki að sök þar sem að hún tók síðan varnarfrákast og var send strax aftur á línuna þar sem hún nýtti bæði og Haukar því 67-74 yfir með 25 sek. eftir af leiknum. Valur gat lítið gert eftir þetta og lokatölur leiksins 69-78.
 
Stigahæstar hjá Val voru: Jaleesa Butler 25 stig/14 fráköst/3 stoðsendingar, Kristrún Sigurjónsdóttir 14 stig/4 fráköst/8 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Þórunn Bjarnadóttir 11 stig/5 fráköst.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru: Siarre Evans 24 stig/18 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 23 stig/3 fráköst/5 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 12 stig/4 fráköst.
 
Leikmenn leiksins: Siarre Evans og Margrét Rósa Hálfdanardóttir
 
 
 
Mynd/ Úr myndasafni – Frá viðureign fyrr í vetur
 
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:

@Karfan_is