Haukar urðu deildarmeistarar 1. deildar karla á föstudaginn seinasta þegar liðið vann öruggan sigur á Hetti á Egilsstöðum. Þar sem ekki var hægt að senda bikarinn austur fór verðlaunaafhending fram í Schenkerhöllinni þegar liðið kom aftur í bæinn og höfum við á karfan.is fengið sendar til okkar myndir sem teknar voru við tilefnið.
 
Fjöldi stuðningsmanna voru mættir í íþróttahús Hauka til að taka á móti liðinu og fagna með drengjunum. Haukaliðið hrökk heldur betur í gang eftir áramót og sigraði alla 10 leiki sína og það nokkuð örugglega eða með um 28 stigum að meðaltali.
 
Haukar munu því spila í Dominos-deildinni á næstu leiktíð og spurningin verður hvaða lið fylgir þeim upp en úrslitakeppni 1. deildar hefst 2. apríl þar sem Valur mætir Þór Ak. og Hamar mætir Hetti.
Mynd: Magnús Ingi Óskarsson