Hamar vann virkilega sterkan útisigur á Val að Hlíðarenda í kvöld eftir framlengdan leik.  Lykilmenn í Hamar komu einstaklega einbeittir til leiks eftir stóran skell í síðasta leik og skiluðu tveimur mikilvægum stigum í hús.  Valsmenn þurfa nú að treysta á að Haukar tapi sínum síðasta leik og að þeir vinni sinn leik til þess að þeir fari beint upp í úrvalsdeild.  Hamar er nú eftir þennan glæsilega sigur aðeins tveimur stigum frá efstu liðunum þegar ein umferð er eftir af fyrstu deild.  

 

Bæði lið voru að spila nokkuð þéttan varnarleik og gáfu hvergi eftir, dómararnir dæmdu samkvæmt því og gerðu bæði lið því breytingar á sínum liðum til að forðast villuvandræði strax á fyrstu fjórum mínútum leiksins.  Leikurinn spilaðist hnífjafn og munaði aldrei meira en fjögur stig á liðinum í fyrsta leikhluta.  Hamarsmenn höfðu 2 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta með virkilega góðri lokamínútu þar sem þeir skoruðu nokkur auðveld stig og stáliu boltanum nokkrum sinnum.  Eftir tíu mínútur af leik var staðan því 19-21.  

 

Leikurinn spilaðist svipað í upphafi annars leikhluta, Valsmenn reyndu að keyra upp hraðan en gekk ekki sem skildi og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Ágúst Björgvinsson leikhlé fyrir heimamenn. Hamar hafði þá náð 3 stiga forskoti, 24-27.  Hamarsmenn voru að spila fyrirmyndavörn í fyrri hálfleik og gerðu heimamönnum lífið virkilega leitt.  Valsmenn höfðu ekki skorað í rúmar fimm mínútur og voru í bullandi vandræðum með að missa gestina ekki of langt frá sér.  Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik skoraði Valur loksins en þá munaði samt bara fjórum stigum á liðunum, 27-31.  Bæði Birgir Björn Pétursson og Atli Rafn Hreinsson voru komnir með þrjár villur en hjá Hamar voru fimm leikmenn komnir með 2 villur.  Ragnar Nathaníelsson var yfirburðamaður undir körfunni í kvöld sem önnur kvöld og varði meðal annars tvö skot í sömu sókninni á lokamínútu fyrri hálfleiks.  Forskot gestana stóð í 4 stigum þegar lokaflauta fyrri hálfleiks gall og stóðu tölur 30-34.  

 

Stigahæstur í liði Hamars í hálfleik var Örn Sigurðarson með 13 stig og 9 fráköst, næstu menn voru Jerry Hollis með 9 stig og Ragnar Nathanaelsson með 4 stig, 10 fráköst og 4 varin skot.  

í liði Vals var Rúnar Ingi Erlingsson stigahæstur með 10 stig en næstu menn voru Ragnar Gylfason með 6 stig og Birgir Pétursson með 4 stig.  

 

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleik með látum, Rúnar Ingi og Atli Rafn settu sitt hvorn þristinn á fyrstu 40 sekúndum leikhlutans sem Hamarsmönnum tókst ekki að svara og tóku þeir því leikhlé, 36-34.  Hamar lét það þó ekki slá sig útaf laginu og þeir voru búnir að jafna aftur stuttu seinna í stöðunni 38-38.  Þá hafði Jerry Hollis farið á línuna eftir tæknivillu á Ágúst Björgvinsson, þjálfara Vals.  Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínútur og eftir því sem leið á leikhlutan fór að hitna undir mönnum.  Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta hafði Valur náð þriggja stiga forskoti, 45-42.  Það leit svo allt út fyrir að Valur myndi fara inní fjórða leikhluta með fjögurra stiga forskot en þeir fengu á sig sóknarvillu þegar 2,9 sekúdnur voru eftir, Oddur Ólafsson fór á línu, nýtti fyrra vítið og Jerry Hollis tók frákastið af því seinna og setti niður laglegt “hook”skot, 48-47.  

 

Það var ljóst að mikið var í húfi hjá báðum liðum í fjórða leikhluta, það var barist af öllu afli um hvern bolta og menn hentu sér í jörðina þegar tilefni var til.  Valsmenn áttu góðan kafla á fyrstu mínútum fjórða leikhluta og voru komnir með 3 stiga forskotið aftur þegar þrjár mínútur voru liðnar, 54-51.  Stuttu seinna fékk Jerry Hollis sína fimmtu villu og þurftu Hamarsmenn því að taka lykilmann af velli þegar 6 mínútu voru eftir.  Það virtist opnast um stífan varnarleik sem bæði lið höfðu spilað framan af leik þegar leið á fjórða leikhluta, stressið farið að segja til sín og menn að gera mistök.  Það gerði leikinn þeim mun meira spennandi og lifnaði því nokkuð yfir óvenju mörgum áhorfendum í Vodafonehöllinni.  Þegar fjórði leikhlutinn var hálfnaður höfðu Valsmenn enn þriggja stiga forskot, 60-57.  Birgir Pétursson fékk sína fimmtu villu þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en Valsmenn höfðu þá eins stigs forskot, 62-61.  Hamar tók svo leikhlé stuttu seinna en staðan stóð ennþá 62-61.  

Lokamínúturnar í venjulegum leiktíma voru æsispennandi og stóðu áhorfendur upp þegar seinasta sókn fjórða leikhluta var spiluð.  Bæði liðin voru mikið á vítalínunni en það var ekki ljóst að það þyrfti að framlengja fyrr en lokaskot gestana, sem Örn Sigurðarson tók, geigaði.  í lok venjulegs leiktíma voru bæði lið búin að skora 66 stig og því þurfti að framlengja.

 

Það voru Valsmenn sem byrjuðu af krafti í framlengingunni, náðu fjögurra stiga forskoti þegar Ragnar Gylfason kom þeim í 76-72.  Þá tóku Hamarsmenn við, svöruðu með 9 stigum gegn næstu 2 stigum Vals og höfðu á endanum 3 stiga sigur, eftir ótrúlega lokasekúndur þar sem Valsmenn fengu 2 tækifæri á að taka forustuna í leiknum á ný.  Það var svo Oddur Ólafsson sem fór á línuna þegar 1,4 sekúndur voru eftir og innsiglaði sigurinn, 78-81.  

 

Stigahæsti maður Hamars var Örn Sigurðarson sem átti stórleik ásamt Ragnari Nathanaelson.  Örn skoraði 28 stig og hirti 14 fráköst.  Ragnar skoraði 18 stig og hirti heil 20 fráköst ásamt því að verja 6 skot.  Næsti maður var svo Jerry Hollis sem skoraði 15 stig. 

Hjá Val átti Rúnar Ingi Erlingsson mjög góðan leik og setti 28 stig ásamt því að hirða 8 fráköst og gefa 5 stoðsendingar.  Næstu menn voru Ragnar Gylfason með 16 stig og Birgir Pétursson með 10 stig og 13 fráköst.  

Myndasafn úr leiknum eftir Torfa Magnússon

Umfjöllun/ gisli@karfan.is

Mynd/ Torfi Magg: Nat-maðurinn sækir að Valskörfunni í kvöld.