Helena Sverrisdóttir og liðsfélagar í Good Angels Kosice voru rétt í þessu að tryggja sér farseðilinn í undanúrlist Meistaradeilar kvenna með öruggum 66-54 sigri á CCC Polkowice. Good Angels unnu því tvo leiki í riðlinum og töpuðu einum og fara upp úr riðlinum í 2. sæti en UMMC Ekaterinburg vann riðilinn.
 
Helena lék í tæpar níu mínútur í leiknum og náði ekki að skora en var með eitt frákast. Plenette Pierson var atkvæðamest í liði Good Angels með 22 stig og 8 fráköst.
 
Good Angels mæta Fenerbache í undanúrslitum þann 22. mars næstkomandi eða á föstudag. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast svo við Bourges Basket og UMMC Ekaterinburg.
 
Eins og áður hefur komið fram er Helena fyrst íslenskra kvenna til að leika í meistaradeild Evrópu og nú er hún komin í undanúrslit með Good Angels. Andstæðingur Slóvakanna á föstudag er þekkt stærð en Fenerbache var með Good Angels í riðli í fyrstu umferð og höfðu Good Angels betur þegar liðin mættust í Slóvakíu en lokatölur þar voru 66-63 englunum í vil.