Helena Sverrisdóttir og Good Angels Kosice fengu skell í Rússlandi í dag þegar liðið lék sinn annan leik í 8-liða úrslitakeppni meistaradeildar Evrópu. Lokamótið í keppninni fer fram í Ekaterinburg í Rússlandi en það voru einmitt liðsmenn Ekaterinburg sem voru andstæðingar Góðu Englanna í dag.
 
Lokatölur í leiknum voru 41-72 heimakonur í vil. Good Angels skoruðu ekki fyrstu sex mínútur leiksins en Ekaterinburg er skipað stórstjörnum í kvennakörfunni á borð við Candace Parker og Diana Taurasi. Helena Sverrisdóttir lék í 18 mínútur í leiknum og skoraði 5 stig ásamt því að taka 3 fráköst en atkvæðamest í liði Good Angels var Lucia Kupcikova með 12 stig. Taurasi var með 13 stig og 5 stoðsendingar hjá Ekaterinburg og Candace Parker bætti við 11 stigum og 13 fráköstum.
 
Good Angels eiga einn leik eftir í riðlinum sínum en leikið er í tveimur riðlum í Rússlandi. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í undanúrslit en Good Angels leika aftur á morgun og þá gegn CCC Polkowice