Stjarnan tapaði sínum fyrsta körfuboltaleik í gærkvöldi í meira en mánuð eða síðan þann 16. febrúar síðastliðinn þegar liðið varð bikarmeistari með sigri á Grindavík.
 
Eftir bikarleikinn komu sex deildarsigrar í röð og sá síðasti í deildarkeppninni var gegn Fjölni á útivelli. Fyrsti leikur í úrslitakeppninni var einnig sigur, 102-86 gegn Keflavík.
 
Liðin mættust svo í sínum öðrum leik í 8-liða úrslitum í Toyota-höllinni í gær þar sem Keflavík vann 100-87 sigur. Staðan í einvíginu er 1-1, Keflavík búið að brjóta sigurgöngu Stjörnunnar á bak aftur og stuðningsmenn beggja liða komnir í kunnugleg spor…jú, liðin mættust einmitt í Ásgarði á síðustu leiktíð og í oddaleik. Á fimmtudag ræðst það hvort liðið komist í undanúrslit og eftir leikinn í gær og það sem þar gerðist og þau orð sem látin voru falla væri ráðlegt að mæta að minnsta kosti klukkustund fyrir leik í Ásgarð á fimmtudag!
 
Mynd/ skuli@karfan.is – Jarrid Frye ,,klobbar” hér Val Orra Valsson í leik liðanna í gærkvöldi.