Við biðjum Gylfa Þorkelsson félaga okkar og vin velvirðingar á því að hafa birt þessa umfjöllun jafn seint og raun ber vitni en hann fylgdist með viðureign Fsu og Augnabliks í 1. deild karla á dögunum.
 
Eftir töluvert ströggl landaði FSu í gær sínum fyrsta útisigri í 1. deild karla á keppnistímabilinu, á sjálfan konudaginn, þegar liðið mætti Augnabliki í Kórnum. Lokatölur 78-87, í leik sem virtist aldrei ætla að klárast, slagaði hátt í amrískan fótboltaleik. Síðustu mínúturnar var útlit fyrir að sækja þyrfti varaliðið til að ljúka leiknum, því villur voru allar afgreiddar á hraðkassanum. Það er alveg ljóst að ef tímavörðurinn hefði ekki stolist til að láta klukkuna ganga nokkrum sekúndum lengur en almennt er ætlast til, í hvert skipti sem villa var dæmd, þá væri leikurinn ekki búinn enn. Takk, Trausti.
 
Heimamenn byrjuðu betur og skoruðu fyrstu 6 stigin. Gestirnir voru eitthvað stirðir og gekk jafnvel illa að klára ágæt færi í upphafi leiks. En þetta var samt í þokkalegu jafnvægi og eftir 10 mínútur munaði einu stigi, 22-21. Í öðrum leikhluta náði FSu frumkvæðinu og hélt naumri forystu fram að hálfleik en þá var staðan 37-41. FSu byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og það tók Augnablik rúmar 4 mínútur að skora fyrstu körfuna. Munurinn jókst smám saman, og fór í 20 stig, en staðan var 53-70 eftir 30 mínútur. Sá munur hélst í upphafi 4. leikhluta, 57-75 á 35. mínútu og FSu með tögl og hagldir, að því er virtist. En þá hófst einhver absúrd sýning í Fáránleikhúsinu, sem þó hafði ekki verið auglýst opinberlega að sýna ætti í þessum sal á þessum tíma. Mikill flautukór gall við, nánast með andardrættinum, og jafnt á inn- og útsoginu. Augun í höfðum leikmanna hringsnerust af skilningsleysi á meðan jafnt og þétt tíndist af velli úr báðum liðum, sérstaklega gestanna. Augnablik minnkaði muninn hægt og bítandi og minnstur varð munurinn 6 stig, 74-80 á 38. mínútu. Nær komst Kópavogsliðið þó ekki og 9 stigum munaði í lokin eins og fyrr segir.
 
Hjá Augnabliki var Ágúst Angantýsson bestur, með 24 stig og 12 fráköst á 31 mínútu. FSu liðið réði ekki vel við það þegar hann komst á ferðina og virtist leiðin þá vera nokkuð greið að körfunni. Jónas Pétur Ólason skoraði 16 stig, tók 6 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og hitti úr öllum 11 vítunum sínum. Helgi Þorláksson gerði andstæðingunum marga skráveifuna með hraða sínum og útsjónarsemi, fiskaði margar villur og skoraði 12 sig (6/7 í vítum). Leifur Steinn Árnason var með 10 stig og 6 fráköst, Sigmar Logi Björnsson einnig 10 stig, Þórarinn Örn skoraði 4 stig og Sigurður Davidsen 2.
 
Í liði FSu var Matthew Brunell öflugastur, með 25 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar. Ari Gylfason var stigahæstur leikmanna með 26 stig og bætti við 7 fráköstum. Hann var líka gulls ígildi fyrir sitt lið á vítalínunni síðustu mínúturnar, setti þá allt ofan í, og alls 13 af 14 vítum í leiknum. Daði Berg var aftur með eftir meiðsli og stóð vel fyrir sínu með 13 stig og 6 fráköst og Sigurður Orri Hafþórsson sömuleiðis, með 10 stig og 8 fráköst. Svavar Ingi skoraði 7, Arnþór Tryggvason 4 og þeir Hjálmur Hjálmsson og Karl Ágúst Hannibalsson 1 stig hvor.
 
Þjálfarar beggja liða voru sýnilega ráðvilltir eftir leikinn. Heimir Snær Jónsson, þjálfari tapliðsins, var nánast orðlaus, ekki yfir því að dómgæslan hefði verið hans liði svo mótdræg, eins og oftast er umkvörtunarefni þjálfara, heldur hryllti hann við, að eigin sögn, að hugsa til þess að niðurstaðan hefði vel getað orðið Augnablikssigur, eins og mál þróuðust, og þá ekki mest fyrir tilstilli leikmannanna.
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson