Eftir kalda vatnsgusu síðasta föstudags blasti sú staðreynd við ÍR-ingum að ekkert annað en sigur kemur til greina í Hertz hellinum í Breiðholti, ef einhver von ætti að vera á að halda sér í Domino’s deildinni, annars bíta í það ansi súra epli að falla í þá næstu. Fyrir leik voru ÍR í fallsæti, ásamt KFÍ en bæði lið eru með 10 stig. Tindastóll voru mótherjar Hellisbúa, en þeir sitja í 9. sæti deildarinnar með 12 stig. Það var því mikilvægt fyrir bæði lið að pakka þessum leik saman, en ÍR þarf að sigra með 7 stiga mun eða meira til að komast upp fyrir Tindastól í stöðu deildarinnar.
 
Jafnræði var með liðunum í upphafi fyrsta leikhluta, en vörn beggja liða var þétt og ætluðu þau sér bæði að taka stigin sem í boði voru. Upp úr miðjum leikhlutanum virtist ætla að sjóða upp úr þegar Vilhjálmur Theodór Jónsson ýtti við George Valentine svo hann datt, en strax í næstu sókn Tindastóls voru sömu menn í mun harkalegri líkamlegum átökum sem endaði með ansi harkalegri baklendingu Valentine. Það var greinilegt að það stefndi í hörkuleik en alls óvíst hvort stigaskor yrði í hærri kantinum, en eftir fyrsta leikhluta var staðan 19-19.
 
Annar leikhluti hófst á þrist hjá D’Andre Jordan Williams fyrir ÍR en Tindastólsmenn svöruðu um hæl. Fyrstu mínútur annars leikhluta voru fjörugar hvað varðar stigaskor, en á þremur mínútum voru ÍR komnir í 29-26. Vörnin ekki eins þétt og áköf hjá Tindastólsmönnum en vörn heimamanna var þó enn beitt. Gestirnir voru þar að auki klaufskir í sókn og eftir stoðsendingu á Hertz auglýsingaskilti tóku Tindastólsmenn leikhlé. Upp úr leikhléinu stigu ÍR-ingar og settu niður hverja körfuna við mikinn fögnuð áhorfenda en áhorfendur Tindastóls voru ekki eins sáttir við dómara leiksins eftir að sóknarvilla var dæmd á Valentine. Munurinn kominn í 10 stig og vindurinn í seglum Breiðhyltinga þessa stundina, en bæði vörn og sókn voru að ganga upp hjá ÍR, þveröfugt við TIndastól.
 
Síðustu mínútur hálfleiksins voru þó aðeins hagstæðari fyrir gestina, en smám saman nörtuðu þeir í forskot heimamanna, sem voru mistækir í sóknarleik sínum. Staðan í hálfleik var 44-38 fyrir ÍR, þar sem Nemanja Sovic var atkvæðamestur með 11 stig, flest þeirra komu í sveiflunni sem kom ÍR í 10 stiga forskot um miðjan annan leikhluta. Hann var einnig með 5 fráköst í hálfleiknum. Eric Palm kom næstur með 9 stig og Sveinbjörn Claessen með 8. Hjá Tindastól var Drew Gibson með 8 stig og 6 stoðsendingar. Helgi Rafn Viggóson var með 7 stig og Tarick Johnson með 6.
 
Þriðji leikhluti hófst á snarpri árás frá Tindastólsmönnum og forskot heimamanna varð fljótt aðeins eitt stig. Heimamenn féllu þó ekki flatir á afturendann heldur börðust gegn áhlaupi leikmanna Tindastóls. Hiti var kominn í húsið, bæði hjá leikmönnum en þó sérstaklega áhorfendum. Tapaðir boltar á báða kanta, villur og óreiða einkenndi fyrri hluta fjórðingsins. Leikurinn var orðinn jafn en liðin skiptust á að taka forystuna, Tindastóll virtist þó skrefinu á undan. Leikurinn var nú orðinn að hörkuslag.
 
Áfram héldu Stólarnir í upphafi fjórða, skora og neyða ÍR-inga í að missa boltann. Þetta leist Herberti, þjálfara ÍR, ekki á og tók leikhlé eftir aðeins mínútu leik og annað leikhlé, nú í eigu Tindastólsmanna, aðeins mínútu síðar. Johnson setti svo niður þrist til að koma gestunum 6 stigum yfir en heimamenn tóku snögga syrpu til að svara fyrir sig og halda sér inni í leiknum, þar sem Stólarnir virtust ætla að taka völdin. Sveinbjörn jafnaði svo leikinn fyrir ÍR af vítalínunni þegar tæpar 6 mínútur lifðu leiks.
 
Eftir létta sviptivinda virtust veðurguðirnir vera að snúast í hag heimamanna, en eftir 7 mínútna eltingaleik kom Eric Palm ÍR þremur stigum yfir og desíbelin í Hellinum nálguðust sársaukamörkin óðfluga. Hjalti Friðriksson kom ÍR svo 6 stigum yfir þegar rúmar 2 mínútur voru eftir en Helgi Viggóson svaraði um hæl. Dramatíkin var slík, að eftir hafa hvatt áhorfendur til dáða, þá gerði Eric Palm klaufaleg mistök þar sem hann kom boltanum ekki yfir miðju innan 8 sekúndna og það ekki vegna pressu frá Tindastólsmönnum. Herbert virtist ætla að rífa Palm á hol fyrir þessi mögulega dýrkeyptu mistök. Tindastólsmenn nýttu sér þó ekki tækifærið.
 
Skammt var eftir og allt virtist ætla um koll að keyra og ÍR sóttist eftir 7 stiga forskotinu sem mundi nægja þeim til að komast upp yfir Stólana. Brotið var á Williams sem mistnotaði annað vítaskot sitt og munurinn því hin eftirsóttu 7 stig. Brotið var á Helga Frey Margeirssyni en annað vítaskotið geigaði en það seinna niður. Forskot ÍR því aftur orðið 6 stig. ÍR hraða sér í sókn, mikill darraðadans og áhorfendur við það að andast úr spenning þegar flaututryllirinn Hjalti Friðriksson fær boltann ofarlega á teignum og smellir honum niður um leið og flautan syngur og sendir ÍR upp fyrir Tindastól. Kátínan var gríðarleg og var þetta í annað sinn á stuttum tíma sem Hjalti bjargar Breiðhyltingum með flautukörfu. Lokatölur 80-72.
 
Hjá ÍR var Eric Palm stigahæstur með 17 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Sveinbjörn Claessen kom næstur með 15 stig og 3 stoðsendingar. Helgi Viggóson leiddi Tindastól með 15 stig 5 fráköst, enTarick Johnson var með 13 stig og 4 fráköst. Drew Gibson var svo með 12 stig og 9 stoðsendingar.  ÍR voru atkvæðameiri í fráköstum, með 36 gegn 27 og átti George Valentine 10 fyrir Stólana.
 
 
Mynd/ Heiða
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson