Vefsíðan Eurobasket.com tilkynnti á dögunum hverjir hefðu þótt skara fram úr í sænsku deildarkeppninni sem lauk nýverið. Jakob Örn Sigurðarson leikmaður Sundsvall Dragons var þá valinn skotbakvörður ársins en þeir Hlynur Bæringsson (Sundsvall) og Pavel Ermolinskij (Norrköping) fengu báðir ,,Honorable Menetin” sem útleggst á þá leið að fá heiðursviðurkenningu fyrir sitt framlag.
 
Leikmaður ársins var James Miller leikmaður Boras en hann var einnig valinn leikstjórnandi ársins. Jakob Örn var valinn skotbakvörður ársins og Alex Wesby liðsfélagi Jakobs var valinn framherji ársins. Kraftframherji ársins var Christian Maraker leikmaður Norrköping og miðherji ársins var Kenneth Simms leikmaður Södertalje. Þá var Peter Öqvist valinn þjálfari ársins.
 
Jakob var svo valinn í úrvalslið erlendra leikmanna í Svíþjóð og Hlynur var valinn í varnarlið ársins.