Rimma Stjörnunnar og Keflavíkur hefur vakið umtalsverða athygli í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla. Flopp hér, flopp þar, flopp allstaðar. Leikbann, mönnum ber ekki saman í sinni eigin frásögn miðað við atvikalýsingu dómara skv. dómi aganefndar, gömul myndbönd skjóta upp kollinum og allt er þetta tendrað upp á leifturhaða samskiptamiðlanna. Man einhver hvernig þessir fyrstu tveir leikir Keflavíkur og Stjörnunnar fóru í tölum? Eða hver stóð sig vel í þessum leikjum?
 
Á morgun, Skírdag, fara fram tveir oddaleikir í 8-liða úrslitum. Þrjú af þessum fjórum liðum sem leika í oddaleikjunum duttu öll út í 8-liða úrlsitum í fyrra. Stjarnan var eina liðið sem komst upp úr 8-liða úrslitum en datt svo út í undanúrslitum á síðustu leiktíð. Þrjú lið freista því þess að komast lengra þetta árið heldur en í fyrra og munu vafalítið selja sig dýrt.
 
Stjarnan og Keflavík hafa á síðustu tveimur leiktíðum eldað saman grátt silfur og nú hefur fjandskapur þeirra náð hámarki, eða þangað til annað kemur í ljós eftir morgundaginn. Menn hafa nefnilega í þessu einvígi verið að selja sig ódýrt.
 
Mér er næstum því fyrirmunað að gera greinarmun á hnefahöggi í andlit og á þeirri iðju að floppa. Bæði viðbjóðslegt háttalag og jafnan er viðkvæðið það að um stríð sé að ræða og að allt sé nú leyfilegt í stríði. Auðvitað ætla ég ekki að leggja hnefahöggið til jafns við flopp en þið skiljið hvert ég er að fara!
 
Ef eitthvað mark er takandi á því ágæta pdf-skjali sem gefið var út síðsumars 2012 og heitir áherslur dómaranefndar KKÍ þá ættu ansi margir að vera búnir að heimsækja skammarkrókinn fyrir flopp-iðju sína. Staðreyndin er einfaldlega sú að dómurum hefur misfarist að taka eftir þessum viðbjóði. Hvað gerist þá? Nú myndböndunum er dælt inn á netið til að sýna hvar viðkomandi hafi haft rangt við og þar fram eftir götum. Það er grafalvarlegt mál ef körfuknattleiksdómarar á Íslandi ætla ekki að taka á floppi!
 
Það vantar ekki gæðin í lið Stjörnunnar og Keflavíkur en þeirra er svo sannarlega einvígið sem týndist í sirkusnum. Hið sama verður ekki sagt um glímu Snæfells og Njarðvíkur þar sem boðið hefur verið upp á hörku körfubolta. Það væri óskandi ef Garðbæingar og Keflvíkingar myndu sjá sóma sinn í því að bjóða upp á alvöru körfuboltaleik annað kvöld og ekkert annað.
  
jon@karfan.is
Ritstjóri Karfan.is