Valur vann í gærkvöldi öruggan sigur á Grindavík í Domino´s deild kvenna. Lokatölur voru 78-43 Valskonum í vil sem gáfu tóninn snemma og leiddu 24-8 að loknum fyrsta leikhluta! Hannes Birgir Hjálmarsson lagði leið sína í Vodafonehöllina í gær.
 
Fyrri hálfleikur var einstefna að hálfu Vals og var bara eitt lið á vellinum staðan 24-8 fyrir Val eftir fyrsta leikhluta og 43-21 í hálfleik. Valsvörnin var virkilega góð og  liðið vann vel saman.
 
Grindavík var með hræðilega nýtingu 7 af 37 skotum þar af 2 af 11 í þriggja stiga skotum. Valsliðið varði 8 skot í fyrri hálfleik og stal 8 boltum. Jaleesa Butler er með 16 stig og 8 fráköst í hálfleik, Kristrún Sigurjónsdóttir með 5 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og Ragna Margrét með 12 stig. Petrúnella Skúladóttir var stigahæst í Grindavíkurliðinu með 10 stig í hálfleik.
 
Grindavík varð að finna lausnir á vörn Vals ef þetta átti að verða leikur og þær byrja seinni hálfleik á pressuvörn sem Valsliðið leysti nokkuð auðveldlega en liðin skiptust á að skora og munurinn alltaf um 20 stig. Staðan 56-33 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður og sigur Vals blasti við.
 
Bæði lið gerðu mikið af mitökum en Valsliðið var greinilega sterkara í þessum leik og leiddi 62-34 eftir þrjá leikhluta og virðist nánast formsatriði að ljúka leiknum.
 
Bæði liðin hvíldu útlendingana í upphafi fjórða leikluta og lítið var skorað, stðan 64-38 þegar 6 mínútur voru eftir og 71-40 þegar 3:30 eru eftir. Lokatölur 78-43í ójöfnum leik sem var eign Valsliðsins frá upphafi til enda og halda þær því í 4. sæti deildarinnar.
 
 
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarson
 
Mynd úr safni/ Tomasz Koldoziejski