Það er ávalt mikið í húfi þegar Skallagrímur og Snæfell mætast í úrvalsdeildinni í körfubolta.  Ekki eru einungis 2 stig í boði, heldur einnig er stoltið og montrétturinn í húfi.  Leikurinn í kvöld var þar engin undantekning. Taugar leikmanna.dómara og áhorfenda voru þandar frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og litlu mátti muna að upp úr syði. Stemmingin í stúkunni var mögnuð hvar stuðningsmannaklúbbur fjósamanna riðu húsum og höfðu hátt.
 
Eftir fremur jafna byrjun tóku heimann frumkvæðið og leiddu 13-8 eftir um 6 mínútna leik.  Bæði lið lögðu hjarta og sál í leikinn og oft var það kappið sem bar fegurðina ofurliði. Hólmarar áttu í talsverðum vandræðum sóknarlega og eftir gott áhlaup heimamanna og þrist frá Páli Axel í lok 1.leikhluta leiddu þeir 22-15 að loknum fyrstu 10 mínútunum. Borgnesingar hófu 2.leikhluta einnig af miklum móð og eftir frábæra vörn og góða hittni var staðan allt í einu orðin 29-15 og skömmu síðar eftir tvo þrista frá Palla neðan úr Hyrnu var staðan 35-20.  Þá fóru nú Snæfellingar aðeins að hressast.  Vörnin small saman hjá þeim og skotin fóru að detta.  Staðan í hálfleik 39-34
 
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks.  Mönnum var orðið ansi heitt í hamsi inni á vellinum og slakir dómarar leiksins við það að missa tökin á leiknum.  það var skemmtileg stund þegar  Snæfellingurinn í liði Skallagríms Egill Egilsson kom inná um miðjan 3.leikhluta.  En hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í október sökum meiðsla.  Eftir gríðarlega baráttu og þrátt fyrir magnaða vörn Orra á Nonna Mæju náði Nonni fram hefndum er hann jafnaði 58-58.  þegar leikhlutanum lauk var jafnt 60-60 og Hólmarar virtust komnir á bragðið.  Mikið fum og fát var á leikmönnum beggja liða í upphafi 4.leikhluta.  Ekki var ástandið á dómurunum skárra, þeir vissu vart sitt rjúkandi ráð á köflum. Leikurinn var við það að leysast uppí vitleysu, en Snæfellingar héldu leikskipulagi sínu og þegar 2.30 mínútur voru eftir höfðu þeir náð 5 stiga forystu.  Í stöðunni 78-82 þegar 51 sekúnda var eftir gerðist afar umdeilt atvik. Dæmt var villa á Nonna Mæju og Skallagrímur fékk 2 víti. Medlock fór á vítalínuna og hitti úr fyrra skotinu. Þá hins vegar flautaði dómarinn og eftir mikla reikistefnu og stíf fundarhöld dómaranna dæmdu þeir vítin af Medlock og Snæfell fékk boltann.  Villan á Nonna stóð hinsvegar óhögguð.  Vildi dómaratríóið meina að rangur maður hafi farið á vítalínuna.  Hver það var sem átti að taka vítin skal ósagt látið.  Snæfellingar héldu kúlinu til loka og lönduðu sigri 78-85
 
Snæfell var lengi í gang í leiknum og átti í svitlum vandræðum með vörn heimamanna framan af.  Þeir hittu illa framan af.  En Ingi Þór þjálfari Snæfells hélt ró sinni, vissi hvers megnugir sínir menn væru og eins og góðra liða er siður ná þau að hanga í andstæðingunum og sigla svo fram úr þegar mest á reynir.  Ryan Amoroso var magnaður í kvöld með 27 stig og 90% nýtingu auk þess tók hann 15 fráköst.  Nonni Mæju var lengi í gang en var ansi drjúgur á lokakaflanum og skoraði þegar mest á reyndi, alls 17 stig
Skallagrímur átti afbragðsleik í fyrri hálfleik en heldur dró af þeim í þeim síðari.  Segja má að hæðarskortur hafi verið þeim dýr í kvöld. Án eiginlegs miðherja gekk þeim illa að ráða við téðan Amoroso. Venju samkvæmt var Carlos stigahæstur Skalla með 31 stig. Palli gerð 21 stig þar af 17 í fyrri hálfleik
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson