Fyrr í þessari viku hélt Körfuknattleikssamband Ísland kynningarfund fyrir úrslitakeppnina í Domino´s deild karla. Við kynninguna með Hannesi S. Jónssyni formanni KKÍ var Magnús Hafliðason markaðsstjóri Domino´s á Íslandi. Í máli þeirra félaga kom fram að næsta haust yrðu ansi margir minniboltar í umferð.
 
Domino´s á Íslandi ætla að gefa aðildarfélögum KKÍ um 2500 minnibolta sem dreift verður til félaganna. Myndarlegt framlag hjá Domino´s og ljóst að það verða fjöldamargir peyjar og pæjur með körfubolta við hönd næsta haust en boltagjafirnar eru hluti af samstarfs- og styrktarsamningi KKÍ og Domino´s.
 
Eins og flestum er kunnugt er Domino´s nýr styrktar- og samstarfsaðili hjá KKÍ eins og nöfn úrvalsdeildanna bera með sér. Úrvalsdeildirnar í karla- og kvennaflokki hafa verið nokkuð áberandi með tilkomu nýja styrktaraðilans en eins og flestir muna og brjóta heilann ugglaust yfir þessi dægrin er gangsetning ,,fantasy-deildarinnar” og verður fróðlegt að sjá hvaða snjöllu spilarar vinna iPad spjaldtölvurnar sem í boði voru. Leikurinn er í fullum gangi inni á dominosdeildin.is
 
Mynd/ nonni@karfan.is – Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Magnús Hafliðason markaðsstjóri Domino´s á Íslandi við kynningarfund úrslitakeppninnar í karlaflokki fyrr í þessari viku.