Fjölmiðlamaðurinn Gísli Einarsson kom færandi hendi í Morgunútvarp Rásar 2 í morgun þegar hann lét Sportrásarkónginn Dodda litla éta ofan í sig spá sem innihélt kristallskúlu hvar Skallagrímur átti að falla aftur í 1. deild karla.
 
Skallagrímsmenn eru nú komnir í úrslitakeppni Domino´s deildar karla og mætti Gísli í Morgunútvarpið færandi hendi en hann var vopnaður köku sem á var prentuð lokastaða deildarkeppninnar í Domino´s deildinni.
 
,,Ég er búinn að prenta út spánna, ekki á 150 gramma pappír heldur á marsipan,” sagði Gísli en kakan kom úr Geirabakarí í Borgarnesi. Á kökunni var lokastaða deildarinnar og merki Skallagríms og Njarðvíkur en Doddi litli hefur aldrei farið leynt með hverjum hann heldur í körfuboltanum.
 
Doddi gerði þau mistök fyrr á körfuboltavertíðinni að spá Borgnesingum niður um deild og langtímaminni Gísla Einarssonar fékk uppreisn æru í morgun þegar Doddi mátti éta ofan í sig spánna. Heldur betur höfðinglegt að tapa veðmáli með þessum hætti!
 
 
Myndir/ nonni@karfan.is