Í gegnum tíðina hafa verið mikil tengsl milli Skallagríms og Snæfells í körfubolta.  Liðin komu fyrst uppí úrvalsdeild á svipuðum tíma á tíunda áratug síðustu aldar. Leikir liðanna hafa í gegnum tíðina verið hádramatískir og oft er barátta stuðningsmanna á pöllunum ekki minni en baráttan inni á vellinum. Undantekningarlaust fer þessi barátta fram í bróðerni og menn skilja sáttir að lokum. Og talandi um bróðerni þá var okkar maður í Borgarnesi, Raggi Gunn, með puttann á púlsinum þegar bræður börðust í Fjósinu, annar á pöllunum og hinn á parketinu.

Leikmenn hafa komið og farið á milli liðanna í báðar áttir. Einn þessara sem söðlað hafa um er Hafþór Ingi Gunnarsson sem er borinn og barnfæddur Borgnesingur en ákvað fyrir nokkrum árum að hleypa heimdraganum og flytjast í Stykkishólm til að spila með liði Snæfells. Hann mætti nú undir lok deildarkeppninnar í Domino´s deild karla á sinn gamla heimavöll til að etja kappi við æskuvini sína og félaga. Það sem kannski færri vita er að bróðir Hafþórs, Halldór Óli er einn forsprakka og forystunaut Fjósamanna sem er stuðningsmannaklúbbur Skallagríms. Fjósamenn hafa verið duglegir við að semja kómíska texta um allt og alla og því mátti búast við að Hafþór fengi einhver kómísk skot úr stúkunni frá bróður sínum og hans félögum. Raggi Gunn hitti þá bræður eftir leikinn í Borgarnesi og átti við þá stutt spjall á dögunum.
 
Aðspurður sagði Halldór að ákvörðun hafi verið tekin um að stofna stuðningsmannaklúbb í kringum úrslitakeppnina í 1.deildinni í fyrra þar sem myndaðist ótrúleg stemming. Auðvitað fylgdi sá böggull skammrifi að bróðir hans léki með erkifjendunum, en það væri bara gaman að því.
 
En hvernig var fyrir Hafþór að koma á heimaslóðir vitandi af bróður sínum uppi í stúku syngjandi níðsöngva um andstæðingana?
 
,,Það var bara mjög gaman, alltaf gott að koma í Nesið.  Ég reyndar bjóst við meira níði frá bróður mínum, en þetta var bara virkilega gaman.” 
Halldór er fljótur til svars: ,,Við erum heiðursmannaklúbbur, fjósamenn, og syngjum helst ekki níðsöngva. Við einbeitum okkur helst að því að styðja okkar lið,” sagði Halldór. Hafþór bætti við: ,,Það má geta þess að fjölskyldan okkar bauð Snæfellsliðinu í mat eftir leik.  Það verður boðið uppá gúllassúpu og pasta” sagði Hafþór.  
Halldór svaraði að bragði ansi daufur í dálkinn: “Í ljósi úrslita leiksins þá langar mig ekkert til að borða með ykkur, held ég fari frekar á barinn.” 
 
Að því sögðu kvöddust þeir bræður með faðmlagi og héldu hvor í sína áttina.  Annar í bjór en hinn í gúllassúpu.
 
Viðtal/ Ragnar Gunnarsson
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson