Fyrir ári síðan voru leikmenn Skallagríms að berjast við leikmenn ÍA um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta. Borgnesingar unnu þá rimmu með stæl. Á sama tíma var lið Þórs úr Þorlákshöfn að kljást við Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn.  Nú ári síðar eru Skagamenn ansi vonlitlir á botni 1.deildar á leið niður í 2.deild.  Þórsarar úr Þorlákshöfn gátu hinsvegar tryggt sér 2.sætið í úrvalsdeildinni með sigri í Borgarnesi í kvöld.  Skallagrímur myndi með sigri gulltryggja sér 8. og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Borgnesingur áttu samt möguleika á 8. sætinu þó þeir töpuðu leiknum þ.e ef úrslit í öðrum leikjum yrðu þeim hagstæð.  
 
Gestirnir byrjuðu leikinn í kvöld af meiri krafti. Voru fljótlega komnir í 2-7 áður en heimamenn hysjuðu upp um sig hosurnar.  Skallagrímsmenn keyrðu mikið inn í teig gestanna og jöfnuðu leikinn fljótlega.  Jafnt var á með liðunum fyrsta fjórðung leiksins og leiddu Suðurlandspiltar með 1 stigi er leiknar höfðu verið 10 mínútur.  
 
Borgarfjarðarbændur hófu næsta fjórðung af meiri áræðni.  Eftir flottan flautuþrist frá Trausta og körfu frá Carlos höfðu þeir náð 7 stiga forystu.  Gestirnir svöruðu með fínu áhlaupi og minnkuðu muninn í 1 stig á augabragði.  
 
Þórsarar enduðu hálfleikinn á jákvæðu nótunum og leiddu er gengið var til skrafs og ráðagerða í hálfleik 46-49. Páll Axel var kominn með 16 stig hjá Sköllum og Smith og Jackson voru með 13 stig hvor hjá gestunum. 
 
Þórsarar hafa farið eftir ráðleggingum læriföður síns er leikurinn hófst að nýju eftir hlé.  Þeir byrjuðu af fítonskrafti og skildu heimamenn eftir í reyk.  Varnarlekur Skalla var í molum og Þór skyndilega komnir með 11 stiga forskot.  Þá girtu Borgnesingar sig í brók og minnkuðu muninn aftur í 4 stig þar sem flest þeirra stig komu af vítalínunni.  Curtis Smith var virkilega öflugur fyrir gestina og setti m.a 8 stig í röð.  Staðan fyrir lokaleikhlutann 70-75.  Síðasti leikhlutinn fór að miklu leyti fram á vítalínunni.  Mikið var flautað og ferðir á línuna voru tíðar og leikurinn gekk hægt.  Gestirnir spiluðu hörkuvörn og voru mun skynsamari í öllum sínum aðgerðum.  Á meðan gerðu heimamenn sig seka um klaufaleg mistök og óskynsemi.  Samt misstu þeir Suðurlandsdrengina aldrei of langt frá sér.  Þegar lítið var eftir, og Skallar voru að gera sig ansi líklega til að narta duglega í hæla gestanna, kom vendipunkturinn í leiknum. Leikmenn og þjálfarar Skallagríms vildu fá dæmda villu á gestina þegar það virtist vera brotið á leikmanni Skallagríms í sniðskoti.  Ekkert var dæmt og því mótmælti Pálmi þjálfari full harkalega að mati dómara leiksins sem splæstu í tæknivillu á hinn dagfarsprúða þjálfara Skallagríms.  Þórsarar nýttu vítin sín og fengu svo boltann.  Gestirnir nýttu sér þetta til hins ýtrasta þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir Borgnesinga til að klóra í bakkann.  Lokatölur 96-109.
 
Guðmunduhr Jónsson átti skínandi leik fyrir Þór og gerði 29 stig og var skotnýting hans til fyrirmyndar.  Smith gerði 27 stig auk þess að spreða 8 stoðsendingum á félaga sína.  Hjá Skallagrím var Medlock hreinlega í öðrum heimi og klessti niður 43 stigum aukinheldur að gefa 9 stoðsendingar á vini og vandamenn.  Páll Axel endaði með 23 stig
 
Lærisveinar Benedikts Guðmundssonar tryggðu sér þar með 2.sætið í deildinni og etja kappi við Vesturbæinga í 1. umferð úrslitakeppninnar.  Þeir eru vel að því komnir og eru til alls líklegir
 
Samkvæmt körfuboltaspekingum átti dvöl Skallagríms í deild þeirra bestu ekki að vera löng.  Flestir spáðu þeim falli eða í besta fappi 10. sætið.  Þeim spekingum hefur nú verið gefið langt nef.  Því eftir leiki kvöldsins þar sem bæði Tindastóll og ÍR töpuðu sínum leikjum varð það ljóst að Borgnesingar fara í úrslitakeppnina í 8.sætinu.  
 
Eftir öll þau skakkaföll sem liðið hefur lent í í vetur verður það að teljast mjög góður árangur hjá þjálfurunum Finni og Pálma.  Það verður skemmtileg og dýrmæt reynsla fyrir strákana í liðinu að taka þátt í úrslitakeppninni
 
 
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson