Værlöse BBK steinlá 63-84 gegn Hoersholm 79ers í dönsku úrvalsdeildinni um helgina. Axel Kárason og liðsfélagar í Værlöse eru í 8. sæti deildarinnar með 10 sigra og 17 tapleiki. Liðinu hefur gengið nokkuð betur eftir áramót heldur en á fyrri hluta tímabilsins. Við ræddum við Axel fyrir nokkru sem segir yfirstandi tímabil eitt það áhugaverðasta sem hann hafi leikið.
 
,,Já það má segja að þetta hafi farið vel af stað með hækkandi sól á nýju ári hjá okkur. Eins og svo oft áður þegar vel gengur þá eru það fleiri en eitthvað eitt sem kemur saman og myndar góða heild. Fyrir það fyrsta má nú benda á er leikjaprógrammið. Fyrir jól vorum við lítið að spila við lið á heimavelli sem fyrirfram ættu að vera af svipuðum styrkleika, en í janúar komu þrír heimaleikir við slík lið. En vissulega kom það á óvart að þessir þrír sigrar voru allir með öruggasta móti. Það var svo afar kærkomið að ná að stela sigri á útivelli gegn SISU,” sagði Axel sem leikur í nokkuð breyttu liði Værlöse þessa vertíðina.
 
,,Það verður alveg að viðurkennast að hingað til hefur þetta nú verið með áhugaverðari tímabilum sem ég hef spilað. Í sumar var það ljóst að við myndum aðeins vera tveir eftir úr liðinu frá því í fyrra, og hinn af okkur tveim er 18 ára gutti sem var á sínu fyrsta ári í fyrra. Af 14 leikmönnum í heildarhóp eru 9 sem eru 94 módel eða yngri, og við með yngsta lið í sögu deildarinnar. Þannig að ég sagði strax í byrjun að það sem mætti kalla undirbúningstímabil yrði 5-6 vikum lengur hjá okkur en það sem venjulega má búast við. Það stóð nú svona nokkurn veginn heima, og við erum svona fyrst núna að verða nokkuð fullþroska lið, bæði að menn eru að skilja sín hlutverk og eins að það er svona farið að skilja á milli hjá guttunum sem eru tilbúnir að spila í meistaraflokki og þeirra sem eru það ekki. Þannig að það er svona að myndast þessi átta manna kjarni sem hvert lið þarf að hafa,” sagði Axel og úrslitakeppnin handan við hornið.
 
,,Þau tvö lið sem ekki fara í úrslitakeppnina fara í seríu upp á þrjá sigurleiki um hvort þeirra fellur. Fyrirfram var það okkar markmið, en við skulum vera 100% öruggir áður en ég fer að pæla mikið í möguleikum í úrslitakeppni. Það verður þó að segjast að yfirgnæfandi líkur eru á að við myndum mæta Bakken Bears eða Svendborg Rabbits, sem eru búin að ráða þessari deild í fleiri fleiri ár. AC/DC-flokkurinn söng nú einu sinni að peningarnir tala og það sannast í þessu tilfelli. Þetta eru liðin sem eru með langmesta peninginn á bakvið sig og hafa verið í gegnum árin og eru bara komin með svo mikla hefð að það er erfitt að brjóta þetta. Horsens IC virðist vera eina félagið sem nær að narta í þá, enda eru þeir líka með gott bakland í fjármálum. Sem dæmi um mismuninn þá myndi ég giska á að rekstrarkostnaður Bakken Bears, sem er bara meistaraflokkur sé um fimmfalt meiri en rekstrarkostnaður Værløse, sem er það félag sem er með flesta flokka í keppni í landinu. En svo verður að gefa Svendborg það að þeir eru með gríðarlega hæfan þjálfara í Craig Pedersen, sem er búinn að vera með þá í allavega 3-4 ár og það sést vel. En það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Svo er líka að koma vor.”
 
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni
First Svendborg Rabbits 22/5 44
Second Bakken Bears 21/6 42
3rd Horsens IC 19/8 38
4th SISU 17/10 34
5th Randers Cimbria 13/14 26
6th Team FOG Naestved 13/14 26
7th Hoersholm 79ers 11/16 22
8th Vaerloese BBK 10/17 20
9th BC Aarhus 7/20 14
10th Aalborg Vikings 2/25 4