Dagana 15.-16. mars næstkomandi fer körfuknattleiksþing KKÍ fram. Tillögur liggja fyrir þinginu sem og ársskýrsla KKÍ. Meðal þess sem lagt er til er að í úrvalsdeild karla skuli ávallt vera fjórir íslenskir ríkisborgarar á leikvelli og aldrei fleiri en einn erlendur leikmaður.
 
Ársskýrsla KKÍ spannar starfstímabiliði 2011-2013 en þar kemur m.a. fram að formaður KKÍ hefur verið í fullu starfi í embætti sínu síðan sumarið 2011 samkvæmt ákvörðun stjórnar sambandsins. Skrifstofa KKÍ telur því fjóra starfsmenn í dag. Á kjörtímabilinu voru Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir kjörin körfuknattleiksfólk ársins 2011 en árið 2012 voru það Helena Sverrisdóttir og Jón Arnór Stefánsson.
 
Þriggja manna kerfi í dómgæslu var tekið upp fyrir úrvalsdeild karla í upphafi yfirstandandi leiktíðar. Í skýrslu KKÍ segir að eitt af því sem gerist í þeim löndum sem kerfið hefur verið tekið upp er fjölgun dómara og þörf sé á fjölgun dómara hérlendis því það bæði minnki álag á starfandi dómara og lækkar kostnað eins og ferðakostnað.
 
– Á kjörtímabilinu féll enginn körfuknattleiksmaður á lyfjaprófi en samtals voru 30 leikmenn teknir í próf.
– Nýtt fyrirkomulag verður á lokahófi KKÍ þetta árið sem verður 4. maí næstkomandi en svokallað ,,standandi hóf” verður að þessu sinni.
-Smáþjóðaleikarnir 2015 fara fram á Íslandi og sem fyrr verður keppt í körfuknattleik og ljóst að sjálboðaliðahandtökin verði býsna mörg.
 
 
KKÍ er sjálft með nokkrar tillögur fyrir þinginu og þá hefur körfuknattleiksdeild Stjörnunnar komið með róttæka tillögu að breytingu á fyrirkomulaginu í fyrirtækjabikar karla. Hverfist tillaga Stjörnumanna aðallega um það að gera fyrirtækjabikarinn að undirbúningsmóti fyrir leiktímabilið í úrvalsdeild en á þessari leiktíð og þeirri síðustu kom fyrirtækjabikarinn inn í Íslandsmótið.
 
Njarðvíkingar leggja til að aðeins einn erlendur leikmaður í úrvalsdeild karla hafi heimild til að vera á vellinum hjá hverju liði í senn, 4 íslenskir ríkisborgarar verði að skipa leikmannahóp liðsins og í sama streng taka Fjölnismenn í sambærilegri tillögu frá félaginu.
 
Einnig er að finna tillögur um breytingar í aga- og úrskurðarmálum, fækkun flokka í yngri flokkum og fleira sem nálgast má hér.