Arnar Guðjónsson hefur haft í nógu að snúast í Danmörku þó hann hafi á miðri leiktíð horfið frá þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins BC Aarhus. Arnar sagði skilið við liðið sem þá var í baráttu fyrir sæti í úrslitakeppninni en nú er ljóst að ekkert verður að þeim draumi hjá liðinu þetta tímabilið. Karfan.is tók hús á Arnari sem undanfarið hefur verið að liðsinna íslenskum liðum og er þjálfari U15 ára landsliðs Íslands.
 
,,Núna er maður bara að njóta lífsins enda skemmtilegasti tími ársins runninn upp með úrslitakeppnir úti um allt. Þetta er besti tími ársins til að vera körfuboltaáhugamaður. Síðan er maður bara að vinna í því að fá sér vinnu fyrir næsta vetur,” sagði Arnar en eftir að hann sagði skilið við BC Aarhus þá hefur hann verið að þjálfa U18 ára lið karla hjá Svendborg en sá klúbbur er einn sá allra sterkasti í Danmörku.
 
,,Við erum að gera okkur klára fyrir úrslitakeppni hér í Danmörku og förum á Scania Cup. Þetta er skemmtilegt lið og nánast allt strákar á yngra ári og margir efnilegir. Þá hef ég líka verið að sinna videovinnu fyrir nokkur félög, bæði á Íslandi og í Danmörku,” sagði Arnar sem kemur heim um miðjan maímánuð en stefnir hann að því að koma alfarið heim á næstunni?
 
,,Í maí verðum við á fullu við undirbúning hjá U15 ára landsliði Íslands en þeir keppa sem fyrr á Copenhagen Invitational mótinu 13.-16. júní en svo veit maður ekki með framhaldið. Ég hef áhuga á því að koma heim og þjálfa, það er alveg á hreinu. Hinsvegar verður tíminn bara að leiða það í ljós hvort það verði næsta vetur eða síðar meir.”