Valsarinn Kristrún Sigurjónsdóttir er afmælisbarn dagsins en hún er 28 ára gömul í dag og hafði það náðugt í gær þegar Valskonur pökkuðu Grindavík saman í Domino´s deild kvenna. Karfan.is sendir Kristrúnu heillakveðjur í tilefni dagsins.
 
Nú vestur um haf finnum við sjóðheitan náunga sem heitir Stephen Curry en hann á einnig afmæli í dag og hefur verið að skóla menn til undanfarið í NBA deildinni. Curry er 25 ára gamall í dag og leikur með Golden State í NBA. Þess má einnig til gamans geta að hann er sonur Dell Curry sem gerði garðinn frægan m.a. með hinu sáluga en margrómaða og eitursnjalla liði Charlotte Hornets. Víst við erum á nótum Charlotte Hornets þá er sjálf ,,amman” Larry Johnson 44 ára gamall í dag en hann var einn af máttarstólpum Charlotte þegar þeirra sól reis sem hæst svo í raun erum við að tala um alþjóðlegan hátíðisdag stuðningsmanna hins sáluga félags Charlotte Hornets.
 
Hollywoodstjörnur eiga líka fæðingardaga, Billy Crystal og Michael Caine eiga afmæli í dag sem og Quincy Jones. Billy Elliot-strákurinn Jamie Bell á einnig afmæli í dag og tekur mögulega dansinn af því tilefni.