FSu tók á móti Hetti sl. föstudagskvöld í síðasta heimaleik sínum þetta keppnistímabilið. FSu-liðið hafði að engu að keppa í deildinni í leiknum, var bæði búið að missa af úrslitalestinni og tryggja stöðu sína. Höttur var nýbúinn að rótbursta Hamar í Hveragerði og virtist á feiknasiglingu inn í úrslitakeppnina. Sú sigling var ósköp tilþrifasnauð að þessu sinni og slakur þriðji fjórðungur heimamanna færði Héraðsbúum tíu stiga sigur upp í fangið, 72-82.
 
Þetta varð kennslubókardæmi í því að körfuboltaleikur er 40 mínútur og það þarf að leika þær allar. FSu vann nefnilega þrjár orrustur af fjórum – en tapaði samt stríðinu. Eins og fyrr segir var það í þriðja fjórðungi sem gestirnir tryggðu sigurinn, með því að skora 30 stig gegn 14, og þó heimaliðið klóraði í bakkann í lokaleikhlutanum dugði það ekki til.
 
Það var skarð fyrir skildi að frákastahæsti og næst stigahæsti leikmaður FSu spilaði lítið. Matt Brunell fékk nefnilega tvær ódýrar villur snemma í fyrsta leikhluta, var kippt á bekkinn og kom ekkert við sögu aftur fyrr en í seinni hálfleik. Ekki liðu þá margar mínútur þar til hann meiddist á hné og gat ekki tekið þátt eftir það. Annan byrjunarliðsmann vantaði einnig því Siggi Haff. tók ekki þátt í undirbúningi fyrir leikinn, vegna vísindaferðar á skíða- og skautasvæði norður í landi, og vermdi því bekkinn þar til rétt í lokin. Þrátt fyrir þessi áföll var FSu sannarlega í dauðafæri að landa sigri, en til þess hefðu u.þ.b. tveir leikmenn þurft að stíga skrefið upp fyrir meðaltalið sitt í staðinn. Það var aðeins Arnþór Tryggvason sem það gerði, og skilaði fínu framlagi. Ari Gylfason átti að vanda ágætan leik, bæði í sókn og vörn. Daði Berg náði sér einnig þokkalega á strik, eftir dapran dag í Smáranum helgina áður. En aðrir voru eiginlega með tærnar þar sem þeir eru vanir að hafa hælana.
 
Hjá gestunum var enginn einn sem stóð upp úr. Erlendu leikmennirnir, Þeir Austin Bracy og Frisco Sandidge, voru öflugastir, köflóttir þó. Nokkrir aðrir áttu sína spretti inn á milli, en enginn neina glansframmistöðu.
 
Taka ber fram að þessi umfjöllun byggir alfarið á götóttu minni ritara, en enga tölfræði er að enn hafa frá leiknum. Allir þrír vönu skrásetjararnir voru vant við látnir, sumir með stuttum fyrirvara að sögn forsvarsmanna FSu-liðsins, og tölfræðiskráning af myndbandi, sem meiningin var að yrði gerð strax að leik loknum, hefur ekki skilað sér á vef KKÍ, hverju sem sætir. Vonandi stendur það til bóta, þó seint sé.
 
En Hermann Snorri klikkaði ekki og mætti með myndavélina sína. Samkvæmt hinu fornkveðna mun sjón vera sögu ríkari og nálgast má myndir frá leiknum hér
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson