Nettómótið í körfubolta fór fram í Reykjanesbæ um helgina. 1205 keppendur mættu til leiks og skipuðu 194 lið sem léku samtals 462 leiki. Þeir yngstu náðu niður í fimm ára aldur en á heimasíðu Nettómótsins segir:
 
U.þ.b 1.000 manns gistu í skólamannvirkjum bæjarins og 2.500 gestir heimsóttu Vatnaveröld sem er metfjöldi, enda lék veðrið við hvern sinn fingur þessa helgi.
Frá bæjardyrum okkar mótshaldara séð, gekk mótið algjörlega hnökralaust fyrir sig og keppendur, þjálfarar, liðsstjórar og aðrir forráðamenn voru frábærir gestir alla helgina og leikgleðin var einstök sem fyrr. Hafið þúsund þakkir fyrir komuna og verið velkomin að ári, á Nettómótið 1.-2. mars 2014. 

Mótshaldarar vilja einnig færa öllum félagsmönnum Keflavíkur og Njarðvíkur bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag þessa helgi í þágu körfunnar og unga fólksins.
Einnig fá öll þau fyrirtæki og stofnanir sem lögðu mótinu lið miklar þakkir. Þar ber sérstaklega að nefna tvo aðila sem eru annars vegar Samkaup, rekstraraðili Nettó, en þeir hafa verið aðal bakhjarl mótsins í áraraðir og hins vegar Reykjanesbær sem styður okkur með margvíslegum hætti við mótshaldið. Fjölmargir aðrir aðilar koma einnig gríðarlega sterkir inn í þetta með okkur og án þeirra væri þetta aldrei sama mótið.

Óskilamunum hefur verið safnað saman í Íþróttahúsinu við Sunnubraut, sími 421 1771

Munið að á annað þúsund myndir af keppendum mótsins verður að finna fljótlega á www.draumalidid.is. Einnig eru komin ljósmyndasöfn áwww.vf.is og jafnframt verður í Suðurnesjamagasíni VF sýnt innslag frá mótinu á sjónvarpsstöðinni ÍNN í kvöld.
 
Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur
 
Mynd/ nonni@karfan.is