Í kvöld eru fimm leikir í gangi í Domino´s deild karla og fjórir þeirra verða í beinni netútsendingu ef veðurguðirnir heimila að allt gangi eftir. Þar sem aðeins þrjár umferðir eru eftir í deildinni og sex stig í boði þarf vart að tíunda hversu dýr stig verða í umferð í kvöld. Hart verður barist á öllum vígstöðvum og vissara að mæta snemma í húsin, koma sér vel fyrir og styðja dyggilega við bakið á sínum mönnum.
 
Keflavík – Þór Þorlákshöfn (Sport TV)
Þórsarar reyna nú það sem þeim hefur enn ekki tekist í Toyota-höllinni, að vinna deildarleik í úrvalsdeild í Keflavík! Kvarnast hefur myndarlega úr hópi Þórs við meiðsli þeirra Darra Hilmarssonar og Baldurs Ragnarssonar. Fyrir leikinn í kvöld er Þór í 2. sæti deildarinnar með 28 stig en Keflvíkingar í 5. sæti með 24 stig. Þrívegis hafa liðin áður mæst í deildarleik í Keflavík og heimamenn haft betur í öll skiptin, síðast réð flautukarfa úrslitum þegar liðin mættust í Keflavík.
 
Tindastóll – Njarðvík (Tindastóll TV)
Á dögunum var dregin lína við 7. sæti deildarinnar, Njarðvíkingar fara ekki úr 7. sæti og liðin fyrir neðan komast ekki uppfyrir þá. Tindastólsmenn eru þó að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni og um leið tilverurétti sínum í úrvalsdeild og sú barátta er hörð. Stólarnir lágu naumlega í Þorlákshöfn í síðasta leik en Njarðvíkingar eru heitasta lið deildarinnar um þessar mundir með fjóra sigurleiki í röð! Síðasti Njarðvíkursigur í deildinni í Síkinu kom 14. janúar 2010 en heimamenn hafa unnið tvær síðustu viðureignir liðanna í deild í Skagafirði.
 
KFÍ – Grindavík (KFÍ TV)
Topplið Grindavíkur mætir á Jakann í kvöld ef veður leyfir. Ísfirðingar hafa tapað síðustu fimm deildarleikjum sínum í röð og flestir þeirra ansi hjartastyrkjandi. Heimamenn í kvöld eru í fallsæti og sigur því lífsnauðsynlegur. Að sama skapi eru stigin tvö Grindvíkingum ekki síður mikilvæg þar sem Þór og Snæfell bíða spenntir eftir því að gulir taki feilspor svo toppsætið er í húfi í hverjum leik hjá Grindavík það sem eftir er móts. Ísfirðingar hafa tapað síðustu þremur deildarviðureignum sínum gegn Grindavík á Jakanum, síðasti heimasigur KFÍ gegn Grindavík í deildinni á heimavelli þeirra kom árið 2001 en þá fóru leikar 101-99 og því er færi fyrir vestfirðinga til að komast aftur á rétta braut heima gegn gulum eftir 12 ára bið!
 
KR – Stjarnan (KR TV)
KR á enn kost á því að klífa upp töfluna, breytingar í DHL Höllinni nú fyrir skemmstu færðu Finn Frey Stefánsson í stöðu aðstoðarþjálfara þegar Gunnar Sverrisson var látinn fara. Röndóttir verða að hrista sig saman helst í gær enda eru þeir að mæta bikarmeisturum Stjörnunnar sem unnið hafa þrjá síðustu deildarleiki í röð. Stjarnan í 4. sæti með 24 stig og 6 stig í pottinum svo ekki er loku fyrir það skotið að þeir geti klifrað ofar í töfluna og slíkt hið sama gildir fyrir KR í 6. sæti með 20 stig. KR hefur unnið tvo síðustu deildarleiki liðanna í DHL Höllinni en Stjarnan vann þar síðast árið 2009. Liðin hafa leikið samtals sex deildarleiki í DHL Höllinni, KR unnið 5 en Stjarnan 1.
 
Skallagrímur – Snæfell
Eini leikur kvöldsins sem ekki verður í beinni netútsendingu. Hólmarar í bullandi baráttu um toppsætið og Skallagrímur líkt og svo mörg önnur lið að berjast um sæti í úrslitakeppninni sem og tilverurétti sínum í deild. Þýðingarmikill vesturlandsslagur og ljóst að það verður fjölmennt í Fjósinu í kvöld þegar vorverkin hefjast. Liðin mættust síðast í deildarleik úrvalsdeildar í Borgarnesi árið 2008 og þá vann Snæfell stórsigur. Fjósamenn bíða því vafalítið spenntir eftir því að fá Hólmara í heimsókn og rétta sinn hlut.
 
Staðan í deildinni
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Grindavík 15/4 30
2. Þór Þ. 14/5 28
3. Snæfell 14/5 28
4. Stjarnan 12/7 24
5. Keflavík 12/7 24
6. KR 10/9 20
7. Njarðvík 10/9 20
8. Skallagrímur 7/12 14
9. Tindastóll 6/13 12
10. ÍR 5/14 10
11. KFÍ 5/14 10
12. Fjölnir 4/15 8
  
Mynd/ Pétur og Ísfirðingar taka á móti toppliði Grindavíkur í kvöld.