Keflvíkingurinn Michael Craion hefur farið mikinn undanfarið en í þrettándu umferð setti kappinn upp tröllauknar tölur! Keflavík vann þá 107-103 spennusigur á Stjörnunni og Michael ,,The Beast” Craion bauð upp á 50 framlagsstig!
 
Craion gerði þá 29 stig fyrir Keflavík í leiknum, tók 17 fráköst, gaf 2 stoðsendingar, varði 6 skot og stal 3 boltum. Ef þetta verðskuldar ekki kippu af Gatorade þá heimur versnandi fer. Jafnfram setti Craion met í deildinni þetta tímabilið en hann er eini leikmaðurinn til þessa sem nær að landa 50 framlagsstigum!
 
Annað skiptið í röð sem Keflvíkingar hreppa nafnbótina Gatorade-leikmaður umferðarinnar en í tólftu umferð var það Magnús Þór Gunnarsson fyrir frammistöðu sína gegn Grindvíkingum. Keflvíkingar verða á ferðinni í kvöld þegar þeir mæta KR í DHL Höllinni en búist er við miklum slag þessara sterku liða.