Grindvíkingurinn Sammy Zeglinski er Gatorade-leikmaður sjöttu umferðar eftir einróma niðurstöðu fréttaritara og ljósmyndara Karfan.is. Þar sem fimmtu umferð er ekki lokið kemur sjötta umferðin því hér á undan. Sammy fór mikinn með Grindavík í Borgarnesi í sjöttu umferð þar sem hann landaði myndarlegri þrennu er Íslandsmeistarar Grindavíkur mörðu sigur á nýliðum Skallagríms, 86-93.
 
Zeglinski var með 25 stig í leiknum, 10 fráköst og 11 stoðsendingar og fékk 37 framlagsstig fyrir vikið. Þetta er sjöunda hæsta framlag leiktíðarinnar það sem af er vetri en Zeglinski og Marcus Van hafa báðir náð 37 framlagsstigum og hæsta framlagið þennan veturinn á Marcus með 44 í leik gegn Stjörnunni sem varð að tvíframlengja.
 
Zeglinski verður svo aftur á ferðinni í kvöld þegar Íslandsmeistarar Grindavíkur taka á móti Stjörnunni í Röstinni.