Það hrærðust tvíbentar tilfinningar með tíðindamanni körfunnar.is á leiðinni í Valsheimilið sl. föstudagskvöld, enda tveir synir og náfrændi að fara að takast á. Ekki bætti úr skák upphringing frá nonni@karfan.is rétt fyrir leik, þar sem óskað var, vegna einhverra forfalla, eftir skriflegri greinargerð um leikinn. En hvað um það hafði Valur tögl og hagldir gegn FSu í 1. deild karla á heimavelli sínum að Hlíðarenda. Lokatölurnar, 95-80, gefa ágæta mynd af getumuninum á liðunum.
 
Nokkurt hökt var á leikmönnum í upphafi og ágæt sóknarfæri fóru forgörðum beggja vegna áður en heimaliðið braut ísinn og skoraði 6 fyrstu stigin. FSu vaknaði þá með andfælum og þrír þristar í röð frá Ara Gylfasyni og einn frá Hallmari Hallssyni á stuttum tíma komu gestunum í eins stigs forystu og gáfu von um spennandi og skemmtilegan leik. Valsmenn létu þetta áhlaup þó ekki á sig fá og héldu sínu striki, tóku frumkvæðið í leiknum og héldu því til loka.
 
Þó Valur leiddi allan tímann var fyrri hálfleikurinn nokkuð jafn og FSu sýndi að liðið ætlaði ekki að gefa sitt eftir baráttulaust. Þar munaði mikið um að Daði Berg Grétarsson var aftur með eftir að hafa misst af tveimur síðustu leikjum vegna meiðsla. Hann hikstaði nokkrum sinnum en hrökk svo í gang og veitti liði sínu þá auknu fjölbreytni í sóknarleiknum sem því er lífsnauðsynlegur til að ná einhverjum árangri í deildinni, auk þess að styrkja varnarleikinn mikið.
 
Snemma í seinni hálfleik fékk Daði dæmda á sig fjórðu villuna, umdeilanlega eins og oft hendir, en fékk í kjölfarið óskiljanlega tæknivillu þegar hann, orðalaust, yppti öxlum með spurnarsvip í áttina til dómarans. Þar með má segja að leikurinn væri svo gott sem búinn, Valsmenn gátu, öfugt við gestina, leyft sér að gefa lykilmönnum miklvæga hvíld og sigldu fleyinu svo í örugga höfn.
 
Valsliðið var mjög sannfærandi í þessum leik. Flæðið og skipulagið í sóknarleiknum var gott og sjáanleg batamerki þar á miðað við fyrri leiki liðsins í haust. Chris Woods var óborganlegur, með frábæra skotnýtingu og alls óviðráðanlegur. Þessi leikmaður virðist ætla að reynast himnasending fyrir Val, vex með hverjum leik og spurning hvar það endar eiginlega. Sannarlega stökkbreyting í leikmannamálum þar á bæ frá því í fyrra. Fyrir utan að skora öll þessi ósköp þá mataði hann Birgi Björn Pétursson hvað eftir annað á fríum sniðskotum. Birgir þakkaði pent fyrir sig, nýtti færin vel og var öruggur á vítalínunni. Atli Rafn Hreinsson átti sinn besta leik í Valsbúningnum og hinir ungu og reynslulitlu strákar í FSu voru ráðalausir gegn honum, sér í lagi undir körfunni. Þá spilaði Atli mjög góða vörn, varði skot og reif niður fráköst. Ragnar Gylfason og Rúnar Ingi Erlingsson áttu báðir fínan leik, skiluðu sínu mikilvæga framlagi í liðsvinnu, stoðsendingum og stolnum boltum, þó oft hafi þeir skorað meira. Segja má að yfirsvipur, samræmi og prúðleiki Valsliðsins hafi verið til fyrirmyndar.  
 
Allgóður bragur var á FSu-liðinu meðan Daða Berg naut við. Þó verður að segja það eins og er að áhyggjuefni hlýtur að vera fyrir þjálfarann að ekki skuli fleiri leikmenn taka á árum þegar þyngist róðurinn. Valsmenn nýttu sér þetta auðvitað, sérstaklega eftir að Daði hafði verið útilokaður, og límdu t.d. Atla Rafn á frænda sinn, Ara Gylfason, og tvídekkuðu hann svo þegar þannig stóð á. Ari fann fría menn ágætlega í þeirri stöðu og Matt Brunell gerði iðulega vel að klára sín mál, átti góðan leik og bætir sig stöðugt. Aðrir leikmenn en þessir þrír skiluðu litlu, því miður fyrir FSu. Sóknarleikurinn verður fyrir vikið of fyrirsjáanlegur, sem er ávísun á erfiðleika gegn góðum liðum, eins og Valur óneitanlega er. Að þessu sögðu má samt ekki gleyma því að þetta eru kjúklingar sem fá núna mikilvæga eldskírn. En í þessum bransa er ekkert „elsku mamma“ og þeir verða bara að gjöra svo vel og gleypa sitt tröllamjöl, nýta tækifærin og láta til sín taka. Strax.
 
Því miður er tölfræðiskýrslan af leiknum ekki aðgengileg á vef KKÍ, hverju sem sætir, þó leikurinn hafi verið í beinni Netútsendingu og því ekki hægt að styðja frásögnina tölum. Vonanadi stendur það til bóta.
 
 
Mynd/ Heiða: Bræðurnir Ari og Ragnar Gylfasynir mættust í leiknum.
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson