Aðstoðarþjálfari Njarðvíkurliðsins Örvar Þór Kristjánsson mætti aftur í Dalhúsin í gær og mætti sínum gömlu félögum í Fjölni en hann þjálfaði liðið tvö sl tímabil þartil Hjalti Þór Viljálmsson tók við liðinu í vor.
 
Örvar var að sjálfsögðu mjög kátur eftir endurkomuna í Dalhúsin enda sýndu hans drengir sparihliðarnar og völtuðu yfir heimamenn 67-92.  „Þetta var flottur leikur af okkar hálfu, við byrjuðum þetta af miklum krafti og menn voru að vinna saman sem lið.  Sóknarleikurinn var vel útfærður en það var að mínu mati frábær vörn sem skóp þetta framar öðru og sú staðreynd að við fengum mikið framlag úr öllum áttum.  Strákarnir gera okkur Einari lífið leitt fyrir næstu leiki enda gerir hver einasti kjaftur tilkall í byrjunarliðið eftir svona framistöðu“ sagði Örvar.
 
Nú virðist hinn síungi Friðrik Stefánsson vera að komast í hörku form, hann hjálpar liðinu mikið ekki satt?
 
„Friðrik er auðvitað ótrúlegur fagmaður og er hægt og bítandi að komast í betra form.  Hann spilar af miklum krafti og leiðbeinir þessum ungu mönnum sem er okkur ómetanlegt.  Við erum honum óendanlega þakklátir en það er líka greinilegt að hann nýtur þess að spila með þessum ungu pjökkum.“
 
En hvernig fannst þér að koma aftur í Dalhúsin, núna sem andstæðingur Fjölnismanna?
 
„Það er ekki annað hægt að segja en ég hafi fengið blíðar móttökur enda mikið fagfólk sem stendur að baki Fjölnisliðinu. Steinar formaður bakaði meira að segja og bauð mér uppá þetta gómsæta bakkelsi að leik loknum enda sér hann það vel að ég má alveg við smá sætabrauði.  Annars leið mér bara afar vel hérna í Dalhúsum eins og alltaf og ég er fyrst og fremst rosalega sáttur og stoltur af Njarðvíkurliðinu.  Fjölnisliðið er mjög flott, klassa piltar sem eru alltaf að bæta sig. Hjalti þjálfari mun koma strákunum á rétta braut þrátt fyrir erfiðan kafla núna og ég er sannfærður um að bæði þessi lið verði í úrslitakeppninni í vor“
 
En hvað finnst þér um deildina í vetur?
 
„Deildin er alveg ótrúlega jöfn og það er jafn stutt á toppinn og á botninn.  Það geta allir unnið alla og þannig á þetta að vera.  Við Njarðvíkingar höfum gengið í gegn um sveiflur í vetur en ég veit það að við erum komnir í gang núna en eigum jafnframt  helling inni.  Framhaldið er mjög spennandi, hver leikur er eins og bikarúrslitaleikur og við ætlum okkur ekkert annað en að komast í úrslitakeppnina.  Sú barátta verður hörð því eins og fyrr segir er þetta svo fáránlega jafnt að það er nánast ómögulegt að spá fyrir um framhaldið, margt getur gerst.  Hvet þó fólk að lokum að fjölmenna á leikina og skora sérstaklega á mitt fólk Njarðvíkinga að mæta grimmt á þá leiki sem framundan eru.
Það var virkilega dapurt að sjá fátæklega umfjöllun Moggans í morgun og hvað þá hjá Fréttablaðinu sem vart birti staf um heila umferð í körfuboltanum. Þetta er alveg ferlega slakt og vonandi verður breyting á þessu.“
 
Mynd/ Njarðvíkurþjálfararnir Einar t.v. og Örvar t.h.