KR mættu búningalausir til Ísafjarðar í Lengjubikarnum í dag og léku í útivallarsetti heimamanna í KFÍ. Það kom þó ekki í veg fyrir sigur þeirra í leiknum en nú hefur vaknað upp athyglisverð spurning. Á KFÍ að taka upp þvottagjald fyrir aðkomulið sem eru með allt þversum niður um sig?
 
Á dögunum gleymdu Keflvíkingar búningunum heima og nú KR-ingar. Ísfirðingar eru höfðingjar heim að sækja og hafa í bæði skiptin lánað aðkomuliðunum búningana sína sem er vel. Þetta er þó slyðruháttur með mesta móti og ættu heimamenn í Jakanum að taka upp ríflegt þvottagjald fyrir gestaliðin sem geta ekki álpast til að muna eftir sínu eigin búningasetti!
 
Mynd úr safni/ Þetta er sjaldgæf sjón, andstæðingar KFÍ mættu hér í sínum eigin búningum.