Valsmenn eru komnir á gott skrið í fyrstu deildinni og hafa sigrað fyrstu fimm deildarleiki sína eftir sigur  gegn Þór frá Akureyri að Hlíðarenda í kvöld.  Valsmenn eru því efstir ásamt Hamar eftir fimm leiki með 10 stig.  Þór Ak. eru í sjötta sæti með 4 stig.  Valsmenn voru mun betri aðilinn í leik liðanna í kvöld og voru 10 til 15 stigum yfir nánast allan leikinn.  Þeir tóku frumkvæðið í leiknum strax um miðbik fyrsta leikhluta og náðu forskotinu upp í 15 stig fyrir lok fyrri hálfleiks.  Eftir það var lítil breyting á leik liðanna, þeir skiptu stigunum á milli sín en munurinn á liðunum rokkaði úr 12 til 18 stigum.  Valur hafði svo á endanum 15 stiga sigur, 99-84.
 

Stigahæstur í liði Vals með virkilega flottum leik var Chris Woods sem skoraði 33 stig, hirti 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.  Næstir á blað voru Birgir Pétursson með 19 stig og 11 fráköst og Þorgrímur Guðni Björnsson með 10 stig.  Í liði Þórs var Darco Milosevic stigahæstur með 18 stig en næstir voru Bjarni Konráð Árnason með 14 stig og Ólafur Aron Ingvason með 13 stig.  

 

Það var lítið um varnir fyrstu mínúturnar og strax eftir eina mínútu af leik stóðu tölur 7-6 fyrir Val.  Gestirnir voru mjög ákafir í sínum leik, pressuðu boltan hátt og keyrðu upp völlinn við hvert tækifæri.  Það gaf þeim forskotið í leiknum en sem endist þó ekki lengi.  Þór Ak. náðu mest 4 stiga forskoti í stöðunni 7-11 en Valur svarði um hæl með næstu fjórum stigum leiksins.  Liðin skiptu með sér stigunum næstu mínúturnar en stigin komu þá ekki jafn auðveldlega og í upphafi leiks.  Leikurinn spilaðist ennþá mjög hratt og við það gerðu bæði lið mikið af mistökum.  Ákafur varnarleikur Þórs skilaði sér vel því skotin hjá Val voru að geiga og þeir voru að tapa boltanum í gríð og erg.  Það sama var hins vegar uppá teningnum á hinum enda vallarins þar sem Þór gekk lítið að koma boltanum ofaní.  Valur náði því fimm stiga forskoti þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta, 20-15.   Þór tókst að minnka það forskot niður í 2 stig þangað til á síðustu sekúndu leikhlutans þegar Chris Woods setti yfirvegaðan þrist um það bil sem klukkan gall, 27-23.  

 

Þór byrjaði annan leikhluta nokkuð betur og tókst að minnka muninn niður í eitt stig eftir tvær mínútur af leik, 29-28.  Þeir voru þá mun yfirvegaðri í varnarleik sínum og virtust þess vegna vera rólegri í sínum aðgerðum í sókninni líka.  Halldór Halldórsson fékk sína fjórðu villu og aðra sóknarvillu á innan við mínútu stuttu seinna og virtist alls ekki vera ánægður með dómara leiksins.  Rúnar Ingi Erlingsson lá þó í góflinu eftir seinni sóknarvilluna hans.   Valsmenn svöruðu þá með flottum kafla sem náði hámarki þegar Chriss Woods tróð boltanum með stæl og Þór tók leikhlé, 39-30.  Chris Woods toppaði sig svo stuttu seinna þegar hann fékk háloftasendingu frá Rúnari sem hann skilaði ofaní með stæl, 43-33.  Valsmenn héldu þessu 10 stiga forskoti næstu mínútur og þegar leið á síðari hluta leikhlutans fóru þeir að bæta í.  Valsmenn nýttu hraðaupphlaupin sín virkilega vel og refsuðu gestunum eginlega með því að leika þeirra leik.  Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var forskot Vals komið í 15 stig, 53-38.  Þá stöðu tókst gestunum að laga örlítið áður en flautað var þegar staðan var 57-45.  

 

Stigahæstur í liði Vals í hálfleik var Chris Woods með 23 stig, Birgir Pétursson með 9 stig og 6 fráköst og Rúnar Ingi Erlingsson með 8 stig og 3 stoðsendingar.  Hjá Þór Ak. var Bjarni Konráð Árnason stigahæstur með 12 stig en næstu menn voru Darco Milosevic með10 stig og Elías Kristjánsson með 8 stig.  

 

Það var lítil breyting á stigamuninum á liðunum á fyrstu mínútum seinni hálfleiks, liðin skiptu stigunum bróðulega á milli sín en Valsmenn þó í við ákveðnari þegar á reyndi.  Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu þeir aftur náð í 15 stiga forskot, 67-52.  Þór virtust aldrei líklegir til þess að minnka muninn að neinu viti og fengu á sig mikið af hröðum sóknum sem gerði Valsmönnum alltof auðvelt fyrir.  Munurinn á liðunum minnkaði því lítið og á lokamínútunni í þriðja leikhluta tókst Valsmönnum að auka hann enn frekar.  Þegar einn leikhluti var eftir af leiknum munaði 18 stigum á liðunum, 78-60.  

 

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu þann fjórða betur og höfðu minnkað forskot Vals niður í 14 stig þegar tvær og hálf var liðin af leikhlutanum, 82-68.  Stemmingin var með gestunum á þessari stundu og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Val. Leikurinn leistist nokkuð upp um miðbik fjórða leikhluta en bæði lið voru að henda boltanum klaufalega frá sér í mjög hröðum leik.  Forskot Vals minnkaði þó ekki meira og þegar Þór tók leikhlé með fjórar mínútur eftir munaði 15 stigum á liðunum 87-72.  Þór tók sitt annað leikhlé í leikhlutanum um tveimur mínútum síðar en þá var forskot Vals komið upp í 18 stig, 97-79 og úrslit leiksins nokkurnveginn ráðin.  Valur vann á endanum 15 stiga sigur, 99-84.

 

Myndasafn eftir Torfa Magnússon úr leiknum má finna hér 

Gisli@karfan.is

Mynd: Torfi Magnússon